Íslendingar virðast almennt hafa það nokkuð gott þessi misserin ef marka má tölur yfir fjölda nýskráðra hjólhýsa það sem af er ári. Það sem af er ári hafa 256 hjólhýsi verið nýskráð og er fjöldinn orðinn sambærilegur og hann var á hátindi góðærisins fyrir hrun.
Þetta kemur fram í umfjöllun Morgunblaðsins í dag.
Þar kemur fram að á sama tíma í fyrra hafi 241 hjólhýsi verið nýskráð. Leiðinlegt veður undanfarnar vikur hafa síst verið til þess að letja landann til að kaupa hjólhýsi því á síðustu tólf dögum hafa 94 hjólhýsi verið nýskráð.
Í Morgunblaðinu er rætt við Kristínu Anný Jónsdóttur, sölustjóra Víkurverks, sem segir að staðan nú sé svipuð og fyrir hrun.
„Þetta náði hápunkti fyrir hrun, en ég held að við séum búin að ná þeim hápunkti aftur. En árin rétt fyrir hrun voru mjög merkileg því að vöxturinn í sölu hjólhýsa var svo gífurlega mikill milli ára. Undanfarið höfum við séð mikið af fólki sem keypti 2007 og er að endurnýja hjólhýsin sín, þó ekki á erlendum lánum líkt og áður fyrr,“ segir hún og bætir við að ekki sé jafn mikið um það nú og áður að hjólhýsi séu keypt að stórum hluta á lánum.