Laust fyrir klukkan fjögur í nótt leitaði tvítug stúlka eftir aðstoð lögreglu í Austurstræti. Önnur stúlka hafði ráðist á hana og veitt henni áverka. Vitað er hver gerandinn er.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar. Þar er einnig greint frá því að óskað hafi verið eftir lögreglu á skemmtistað í miðbænum vegna slagsmála klukkan hálfþrjú í nótt. Minniháttar áverkar voru á mönnum en sá sem verst lét var handtekinn og vistaður í fangageymslu. Meint fíkniefni fundust á honum við leit á lögreglustöð.
Laust fyrir klukkan þrjú í nótt óskaði leigubílstjóri eftir aðstoð lögreglu vegna ölvaðrar konu sem vildi ekki greiða fargjaldið. Við afskipti lögreglu brást hún illa við og sló og sparkaði til lögreglumanna. Hún er vistuð í fangageymslu.
Nokkrar tilkynningar bárust lögreglu um ofurölvi og ósjálfbjarga fólk í miðbænum. Lögreglan aðstoðaði fólk við komast í heimahús en í einu tilviki varð að vista spænskan ferðamann sem gat engan veginn sagt hvar hann gisti.
Klukkan hálfníu í gærkvöld var óskað eftir aðstoð lögreglu vegna ónæðis og áreitis frá erlendum karlmanni. Var þetta í Kópavogi eða Breiðholti. Við afskipti lögreglu kom í ljós að hann hefur ekki landvistarleyfi og var hann því handtekinn og vistaður í fangageymslu. Mál hans verður tekið fyrir snemma í dag.