„Meðal hópferðabílastjóra eru líka klaufar en flestir eru heiðarlegt fólk. Sá sem hér setti geil i vegg ók í burtu án þess að láta vita af því. Þeir kunna við það sumir,“ segir í stuttri orðsendingu á Facebook-síðu Byggðasafns Skagfirðinga.
Eins og sést á meðfylgjandi myndum olli rútubílstjóri talsverðu tjóni þegar hann ók á torfvegg við byggðasafnið. Sigríður Sigurðardóttir, safnstjóri Byggðasafns Skagfirðinga, segir í samtali við vef Morgunblaðsins að um mikla viðgerð sé að ræða sem líklega kostar um hálfa milljón króna.
„Það er leiðinlegt þegar svona gerist og auðvitað er þetta óviljaverk,“ segir hún en bætir við að óneitanlega hefði verið skemmtilegra ef bílstjórinn hefði látið vita.
Byggðasafnið hefur haft samband við fyrirtæki mannsins og farið fram á að það taki þátt í að greiða fyrir viðgerðina.