Þingflokkur Samfylkingarinnar hefur sent frá sér tilkynningu vegna fréttaflutnings um að gögnum kunni að hafa verið leynt fyrir velferðarnefnd Alþingis. Tilefnið er fréttaflutningur Stundarinnar um að Bragi Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Barnaverndarstofu, hafi beitt sér fyrir því að maður sem grunaður var um að misnota dætur sínar fengi að hitta þær og að Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra, hafi leynt málinu fyrir Alþingi.
Í fréttatilkynningu Samfylkingarinnar segir:
„Alþingi hefur ríkt eftirlitshlutverk með störfum ráðherra. Komi það í ljós að félags- og jafnréttismálaráðherra eða ráðuneyti hans hafi leynt velferðarnefnd og Alþingi mikilvægum gögnum er varðar málefni Barnaverndarstofu og öryggi og velferð barna, hefur það ótvírætt áhrif á stöðu ráðherrans.
Fulltrúar í velferðarnefnd munu um helgina fara ítarlega yfir trúnaðargögn um málið og stefnt er að því að nefndin fundi með ráðherra strax á mánudag. Að loknum þeim fundi verða vonandi öll kurl komin til grafar og staða ráðherra og aðkoma hans að málinu upplýst.
Þingflokkur Samfylkingarinnar krefst þess að ríkisstjórnin setji velferð barna í forgang.“