Óskar Magnússon, fyrrverandi útgefandi Morgunblaðsins og núverandi rithöfundur og umsjónarmaður náttúruperlunnar Kersins í Grímsnesi, vandar starfsfólki dvalar- og hjúkrunarheimilisins Kirkjuhvols á Hvolsvelli ekki kveðjurnar, í stuttum en harðorðum pistli á Facebook. Tilefni skrifanna er frétt Morgunblaðsins á föstudaginn um örlög Tryggva Ingólfssonar. Tryggi hlaut alvarlegan mænuskaða er hann féll af hestbaki fyrir 12 árum, hann er lamaður að hálsi og þarf aðstoð við allar daglegar athafnir. Síðustu 11 árin hefur hann dvalist á Kirkjuhvoli. Samkvæmt frétt Morgunblaðsins þykir Tryggvi vera erfiður sjúklingur vegna mikillar fötlunar auk þess sem hann er sagður vera erfiður í skapi
Fyrir nokkru fór Tryggvi í aðgerð á Landspítalanum í Reykjavík. Mánuður er síðan hann var útskrifaður af Landspítalanum en hann situr þar enn fastur: Ekki hefur reynst fært að taka við honum aftur á Kirkjuhvoli, heimili hans, vegna mótmæla starfsmanna. Hafa 12 starfsmenn hótað að ganga út komi Tryggvi aftur heim.
Mannvonska og dugleysi, segir Óskar
„Ég þekki vel til Tryggva og var í sveitastjórn þegar við lömdum það í gegn að hann fékk inn í Kirkjuhvoli,“ segir Óskar Magnússon í örstuttu spjalli við DV. Honum er málið skylt og honum er mikið niðri fyrir. Óskar segir Tryggva vera í gíslingu starfsmanna Kirkjuhvols á Landspítalanum. Hann skrifar:
„Fyrir fáheyrðan aumingjaskap, mannvonsku og dugleysi er Tryggva Ingólfssyni haldið í gíslingu á sjúkrahúsí Reykjavík. Hann hefur búið á Kirkjuhvoli á Hvolsvelli í ellefu ár, lamaður frá hálsi. Hvolhreppingur alla tíð. Eins og nærri má geta er hann ekki auðveldur sjúklingur enda greiðir ríkið milljónir aukalega til að hægt sé að hafa hæft starfsfólk til að sinna honum. Það starfsfólk hefur nú í hótunum við sjúklinginn og eykur enn á vanlíðan hans. Sveitastjórnin rekur Kirkjuhvol og horfir í gaupnir sér. Ráðleysingjar.“
Allir velkomnir á vígsluhátíðina – nema Tryggvi
Þann 1. maí á að vígja nýja álmu á Kirkjuhvoli og hefur vígsluhátíðin verið auglýst í héraðsblaði. Sagt er í auglýsingunni að allir séu velkomnir í athöfnina. Óskar hvetur hins vegar fólk til að sniðganga þennan viðburð:
„Í auglýsingu er sagt „Allir velkomnir“. Það á ekki við um Tryggva Ingólfsson.
Ég skora á menn að mæta ekki við þá athöfn.“