Margrét Friðriksdóttir, frumkvöðlafræðingur og einn stjórnanda Stjórnmálaspjallsins á Facebook, verður oddviti Frelsisflokksins í komandi borgarstjórnarkosningum á næsta ári. Þetta staðfestir hún í samtali við DV.
Margrét segist ætla að setja velferðarmál á dagskrá. „Húsnæðismálin og menntamálin mun ég leggja mesta áherslu á en einnig teljum við hagkvæmast að hafa flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni. Velferðarmálin eru líka ofarlega á stefnuskránni,“ segir Margrét. Flokkurinn hefur einna helst markað sér sérstöðu fyrir að leggjast hart gegn innflytjendum og múslimum. „Flokkurinn styður kristna trú og gildi,“ svarar Margrét spurð út í þau mál.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Margrét stefnir á að komast í borgarstjórn en árið 2013 sóttist hún eftir öðru til fjórða sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins. Þá sagði hún eftirminnilega að hún hygðist leggja áherslu á kristin gildi eða „Gona bring Jesus back to the City Hall“, líkt og hún orðaði það.
Formaður Frelsisflokksins, Gunnlaugur Ingvarsson, skrifar aðsenda grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag þar sem hann segir að markmið flokksins sé að „losa borgarbúa undan óhæfri og spilltri valdstjórn vinstri og pírata í Reykjavík“. Hann segir enn fremur að flokkurinn vilji gerbreytta og aðhaldssamari stefnu í málum innflytjenda. Gunnlaugur segir að núverandi stefna muni einungis leiða til ófriðar og skerðingar á lífskjörum og frelsis.
Hann segir jafnframt að flokkurinn ætli sér að berjast hart gegn því að bænakallsturn rísi í Reykjavík. „Þess vegna mótmælir Frelsisflokkurinn harðlega samþykkt borgarstjórnar Reykjavíkur að heimila hinum afturhaldssama og öfgafulla söfnuði Salafista-múslima á Íslandi að reisa „stórmosku“ með bænakallsturni við Ýmishúsið í Skógarhlíðinni, eflaust fjármagnaða með fjármunum frá öfgaíslamistum í Sádí-Arabíu. Frelsisflokkurinn heitir því að berjast gegn þessu með öllum ráðum og við skorum á fólk að þora að ganga gegn hinum pólitíska rétttrúnaði með því að veita okkur liðsinni,“ skrifar Gunnlaugur.