„Ég gerði mistök og biðst velvirðingar á því“
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins biðst afsökunar á að hafa beðið um hjálp við að streyma hnefaleikabardaga Conor McGregor og Floyd Mayweather síðustu helgi. Áslaug Arna spurðist fyrir á Twittar hvernig mætti horfa á bardagann ólöglega á netinu án þess að greiða fyrir það, eyddi hún svo færslunni þegar hún fékk svar. Stundin greindi frá þessu í gær og hafði eftir Hallgrími Kristinssyni stjórnarformanni Félags rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði að ólöglegt streymi af því tagi sem Áslaug Arna sóttist eftir hefði slæm fjárhagsleg áhrif á þá sem væru búnir að kaupa sýningarréttinn af bardaganum:
„Staðreyndin er sú að aðilar hafa keypt réttinn af íþróttaviðburðum dýrum dómi. Þeir halda fólki í vinnu, ráða fólk og borga skatta til samfélagsins og þess vegna er sérstaklega dapurlegt að fólk í stöðu eins og hún skuli láta svona út úr sér,“ sagði Hallgrímur. Í hádeginu í dag baðst Áslaug Arna afsökunar á athæfi sínu: „Ég gerði mistök og biðst velvirðingar á því. Stundum þegar mikið liggur við þá leitar maður langt yfir skammt, kannski hvatvísi en alla vega hugsunarleysi. Ég veit betur en get bara beðist afsökunar. Mér skilst að ég hafi misst af góðum bardaga.“