fbpx
Föstudagur 11.júlí 2025
Fréttir

Flosi lenti í óhugnanlegri lífsreynslu: „Þarna liggur maður bara fastur og vitstola af hræðslu“

Gítarleikari HAM kannast við einkenni svefnrofalömunar

Einar Þór Sigurðsson
Mánudaginn 1. febrúar 2016 17:51

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Flosi Þorgeirsson, gítarleikari hljómsveitarinnar HAM, er einn fjölmargra Íslendinga sem kannast við einkenni svefnrofalömunar. Flosi rifjaði upp eitt óhugnanlegt atvik í viðtali við Útvarp Sögu á dögunum.

Mögulega innbrotsþjófur

„Það verður eitthvað rof á svefninum svo maður er svona allt að því vakandi, tilfinningin er svolítið eins og maður sé alveg vaknaður. Ég sem sagt vaknaði einn í herberginu mínu og konan mín var erlendis. Ég bý á jarðhæð og fannst ég heyra fótatak fyrir utan gluggann sem ég heyri aldrei þar sem engar mannaferðir eru nálægt, en ég heyri eitthvað fótatak, fyrst hélt ég að þetta væru regndropar að falla en nei mér fannst frekar að einhver væri þarna,“ sagði Flosi en rimlagardínur voru fyrir glugganum sem var opinn. Flosi rifjaði svo upp að allt í einu hafi honum heyrst að einhver væri að eiga við gardínurnar.

Flosi hélt að mögulega væri um innbrotsþjóf að ræða og því hafi hann ætlað að kanna málið betur.

Ég ætlaði að rísa upp og hasta á viðkomandi en þá finn ég allt í einu að ég get mig hvergi hreyft, er í raun lamaður

Var í raun lamaður

„Ég ætlaði að rísa upp og hasta á viðkomandi en þá finn ég allt í einu að ég get mig hvergi hreyft, er í raun lamaður,“ sagði Flosi sem bætti við að hann hafi reynt að koma upp orði „en þá kemur bara út úr mér óskiljanlegt hálfkæft uml, svo ég ligg þarna sem fangi í eigin líkama og finnst eins og einhver sé að koma inn um gluggann og ég get ekki kallað á hjálp.“

Flosi sagði að svo hefði hann farið að heyra hljóð frá þeim sem reyndu að komast inn um gluggann. Þetta hafi ekki verið mennsk hljóð, hvæs og urr. „Svona eins og það væri hreinlega varúlfur þarna, þarna liggur maður bara fastur og vitstola af hræðslu,“ sagði Flosi.

Óþægilegt ástand

DV hefur áður fjallað um svefnrofalömun. Svefnrofalömum lýsir sér þannig að maður getur sig hvergi hreyft rétt áður en maður festir svefn eða skömmu áður en maður vaknar. „Meðan á þessu stendur er fólk með meðvitund, og því getur fundist ástandið mjög óþægilegt, sérstaklega þegar öndunarerfiðleikar fylgja eins og stundum gerist,“ segir í umfjöllun á Vísindavefnum.

Meðan á þessu stendur er fólk með meðvitund, og því getur fundist ástandið mjög óþægilegt

Í umfjöllun DV í október var vitnað í grein eftir Bryndísi Benediktsdóttur, sérfræðing í heimilislækningum, þar sem hún sagði að svefnrofalömun fylgi oft ofsjónir eða ofheyrnir.

„Við ofheyrnir lýsir fólk því að það heyri brothljóð, skóhljóð eða jafnvel fjarlæga tónlist, sem þegar nánar er athugað finnst engin skýring á. Ofsjónum er iðulega lýst sem mannveru sem stendur við rúm eða í gættinni. Einnig er lýst köfnunartilfinningu og miklum þyngslum fyrir brjósti og jafnvel eins og dauðinn sæki að. Þessi upplifun getur valdið mikilli hræðslu og geymst í minni þess sem fyrir þeim verður árum saman. Svefnrofalömun er ekki óalgeng. Oftast er enginn sjúkdómur að baki þessum einkennum. Þeirra verður meira vart ef svefnvenjur eru óreglulegar og viðkomandi er þreyttur,“ sagði Bryndís í grein sinni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Ísak Snær til Lyngby
Fréttir
Í gær

Skiptar skoðanir á gjaldskyldu við Geysi: „Ég sé að mörgum finnst þetta verð eðlilegt, mikið vildi ég vera á þeirra launum“

Skiptar skoðanir á gjaldskyldu við Geysi: „Ég sé að mörgum finnst þetta verð eðlilegt, mikið vildi ég vera á þeirra launum“
Fréttir
Í gær

Segist hafa séð Ym Art hóta móður sinni lífláti sama dag og hann banaði henni

Segist hafa séð Ym Art hóta móður sinni lífláti sama dag og hann banaði henni