Eldstöðin er lifandi og það þarf að hafa vakandi auga. Hekla á næsta leik og Grímsvötnin eru sprelllifandi eldstöð
Aukin jarðskjálftavirkni í Kötluöskjunni undanfarnar vikur hefur vakið marga til umhugsunar en vísindamenn segja ekki ástæðu til að hafa áhyggjur en alltaf sé samt gott að fara varlega og fylgjast vel með gangi mála. Nokkrar eldstöðvar eru komnar á tíma og má í því sambandi benda á Kötlu og Heklu.
Síðasta stóra gos í Kötlu var 1918 og Hekla gaus síðast í febrúar árið 2000 en sú síðarnefnda er óumdeilanlega eitt þekktasta eldfjall Íslands og hefur svo verið um langa hríð. Í Grímsvötnum gaus síðast 2011 og var það sennilega það stærsta í heila öld. Augu jarðvísindamanna hafa einna helst beinst að þessum þremur eldstöðum síðustu misseri.
Almenningi til upplýsingar og fróðleiks þá komu fram dagana 18.–24. júlí ríflega 360 jarðskjálftar sem voru staðsettir með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands. Stærsti skjálfti vikunnar mældist 2,7 að stærð og var hann í vestanverðum Kerlingarfjöllum. Áfram var mikil jarðskjálftavirkni undir Mýrdalsjökli, stærsti skjálftinn þar var 2,5 að stærð. Áfram mældust skjálftar í Kötluöskjunni. Alls mældust rúmlega 70 við jökulinn þar af um 50 skjálftar inni í öskjunni, sá stærsti var um 2,5 að stærð þann 24. júlí kl. 17.30 en þrír skjálftar yfir tveimur að stærð mældust í vikunni. Tveir skjálftar um 1,6 að stærð mældust við jökuljaðarinn sunnan Hábungu og sömuleiðis mældust tveir skjálftar norðan Goðalandsjökuls, annar um 1,7 og hinn 1,8 að stærð.
Jarðvísindamenn fylgjast vel með þróuninni og jarðskjálftavirkninni og því lá beinast við að fá álit þeirra á stöðunni í þessum málum og hvort ástæða sé til að ætla að eldgos sé yfirvofandi á næstunni.
Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur og prófessor við Háskóla Íslands, tekur undir með Páli Einarssyni að þessi virkni sem hafi verið í Kötlu sé ekki ástæða til að hafa áhyggjur af en aðstæður sem þessar koma nánast upp á hverju ári og að það sé alltaf aukning í skjálftavirkninni á sumrin. Það er því ekki ástæða til að draga of miklar ályktanir af þessu ástandi.
„Þetta er ekki alveg að fullu skýrt en virðist tengjast líka jarðhitavirkninni, áhrifum jökulsins og leysingum en þegar vatn fer að renna frá honum þá breytist þrýstingurinn undir jöklinum. Þetta hefur í för með sér ákveðna breytingu í jarðskjálftavirkninni. Það eru víða litlir sigkatlar og sumir þeirra eru að safna vatni sem kemur síðan fram í vatnavöxtum, ekki miklum samt og þá helst á sumrin. Við vitum ekki til þess að neitt óverulegt sé að gerast, getur þó stundum verið eins og 2011 þegar hlaup kom í Múlakvísl. Við vitum hins vegar ekki til þess að aðstæður séu þannig að safnast hefur fyrir vatn. Það eru alls engin teikn á lofti að það fari að gjósa í Kötlu en sýnir okkur það að hún er lifandi og það þarf að vera á verði. Það er því engin ástæða til að ætla að hún sé að búa sig undir gos, það kemur að því þegar það kemur,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson.
Hvaða eldstöðvar eru komnar á tíma?
„Það er erfitt að segja nokkuð til í þeim efnum. Það er ekkert útilokað að Hekla fari að gjósa á næstunni en við höfum líka aftur á móti ekkert í höndunum sem segir að það fari að gjósa þar. Hún er tilbúin eins og komið hefur fram í fréttum og aðstæður eru ekki ósvipaðar og hafa verið fyrir síðustu gos. Grímsvötnin eru ein af goskunningjum okkar ef við getum sagt svo og þar gaus stóru gosi fyrir nokkrum árum síðan. Það þarf að vera vakandi yfir þessu eins og ég hef sagt oft áður og það er mannskapur í því. Um leið og það fer að hitna eitthvað í kolunum þá verða vísindamenn varir við það á jarðskjálftamælum. Hvað Kötlu varðar og virknina sem fram hefur komið þá er þar einungis um árstímabundna virkni að ræða að okkar mati,“ segir Magnús Tumi.
Almenningur getur því haldið ró sinni enn um stundir?
„Ferðamenn sem fara um á þessum slóðum eiga alltaf að afla sér upplýsingar og vera klárir á því hvernig bregðast á við þegar hættur koma upp. Ég sé hins vegar að þeir þurfi ekki að forðast einhvern ákveðinn stað frekar en annan. Við búum í landi þar sem við þurfum að vera stöðugt vakandi og vera með vara á. Við verðum að vera vakandi fyrir því að það getur alltaf eitthvað gerst og partur af því er þegar ferðamenn eru að fara um á slóðum eins og Heklu og Kötlu. Það er nauðsynlegt að vera meðvitaður um ástandið á þessum slóðum á hverjum tíma,“ segir Magnús Tumi.
Kristján Gíslason, bóndi á Hólum skammt frá Heklu, segist ekki vera að velta því mikið fyrir sér hvenær Hekla fari að gjósa. Kristján hefur búið á Hólum í 40 ár og upplifað fjögur eldgos síðan hann flutti á staðinn.
„Nálægðin við þetta fallega fjall er mjög góð. Svona dagslega erum við hér á svæðinu ekkert að velta hugsanlegu gosi fyrir okkur, þá alveg sérstaklega núna þegar heyskapur stendur yfir sem hæst. Það þýðir ekkert að vera að hugsa um hvenær gýs næst og um það veit enginn heldur. Lífið heldur bara áfram,“ segir Kristján Gíslason á Hólum.
Hekla:
Hekla er í Rangárvallasýslu og er 1,491 metra hár eldhryggur og sést víða að og er auðþekkjanlegt, eins og bátur á hvolfi með breiðar axlir og háan toppgíg. Hekla er eitt virkasta og þekktasta eldfjall á Íslandi og gjarnan kölluð Drottning íslenskra eldfjalla. Fjallið sker sig frá öðrum íslenskum eldfjöllum að því leytinu til að kvikuhólf hennar er mun dýpra en í öðrum fjöllum landsins, eða 11 km dýpi í jarðskorpunni.
Hekla er fremur ungt eldfjall og er meginhluti hennar, það er allt háfjallið, talinn vera yngri en 7 þúsund ára. Fjallið stendur á fremur þykkri jarðskorpu þar sem Suðurlandsbrotabeltið og Suðurlandsgosbeltið mætast. Þarna er því mikil virkni í jarðskorpunni. Allstór sprungurein er undir fjallinu sem bendir til þess að gosið hafi á gossprungum áður en fjallið hlóðst upp og kvikuhólf þess myndaðist. Þessi sprunga sést vel á yfirborðinu og hefur oft gosið úr henni, en þó líka úr öxl fjallsins, s.s. utan sprungunnar.
Hekla gaus síðast í febrúar árið 2000 og þá var spáð fyrir um eldgosið 15 mínútum áður en það hófst. Alls hafa orðið 18 eldgos, svo vitað sé, eða að meðaltali tvö á hverri öld. Hegðun gosanna hefur breyst en eftir stórt gos 1947 varð minna gos árið 1970 og síðan þá á um 10 ára fresti. Gosin eru blanda þeytigosa og hraunrennslis.
Katla:
Katla er eldstöð. Hún er um 1450 metra yfir sjávarmáli í suðaustanverðum Mýrdalsjökli og er í röð þekktustu gosstöðva landsins. Hún er venjulega hulin jökli en hefur að jafnaði gosið á 40 til 80 ára fresti. Síðast gaus Katla árið 1918, flæddi þá yfir Mýrdalssand á stórum svæðum en olli ekki tjóni á fólki, fénaði né húsum. Smalamenn sluppu undan flóðöldunni er hún geystist niður sandinn.
Hlaup kom úr Mýrdalsjökli árið 1922 og einnig 1979 án þess að um gos væri að ræða. Sum Kötluhlaup hafa verið ógnar mikil og hafa þau eytt byggð þeirri sem fyrrum var á Mýrdalssandi. Frá árinu 1999 hefur verið hægt en stöðugt landris, aukin jarðskjálftavirkni og aukinn jarðhiti í Kötluöskjunni.
Þetta eru taldar vísbendingar og langtímafyrirboðar um að bergkvika sé að safnast fyrir undir Kötlu og Kötlugos sé í vændum. Heimildir geta um 16 gos í Kötlu en sennilega munu þau hafa verið um 20 talsins.
Grímsvötn:
Grímsvötn er virk eldstöð undir Vatnajökli austur af Grímsfjalli. Grímsvötn eru virkasta eldstöð landsins og hefur að öllum líkindum gosið oftar en hundrað sinnum frá landnámi og þar af þrettán sinnum síðan 1902. Eldstöðin er um 100km löng og 15 km breið. Síðast gaus í Grímsvötnum 2011 og er það talið stærsta gosið í 100 ár. Gosmökkurinn náði 15–18 km og er talið að gosið hafi verið tíu sinnum öflugra en gosið þar á undan sem var 2004. Grímsvötn eru einnig eitt öflugasta jarðhitasvæði jarðarinnar.
Staðsetning Grímsvatna órafjarri mannabyggðum og langt inni á ísbreiðu Vatnajökuls gerði það að verkum að lengi vel vissu menn lítið sem ekkert um eldstöðina og lýsingar voru gjarnan þjóðsagnakenndar. Nú ber hins vegar svo við að Grímsvötn eru meðal best könnuðu eldstöðva á landinu.
Nýtt virknitímabil virðist nú hafið í Vatnajökli eftir kyrra tímabilið 1938–1996. Frá 1996 hafa orðið fjögur eldgos: Gjálpargosið 1996 (norðan Grímsvatna), Grímsvatnagos í desember 1998, nóvember 2004 og svo síðast í maí 2011. Úr Grímsvötnum koma Skeiðarárhlaup en þau voru orsök þess að ekki varð til akfær hringvegur um Ísland fyrr en 1974.