fbpx

Auðkveðjuhátíð

Guð blessi Ísland í Borgarleikhúsinu

Kristján Guðjónsson
Þriðjudaginn 21. nóvember 2017 19:30

Höfundur: Bryndís Loftsdóttir.

Þetta fimmtudagskvöld sem ég valdi til þess að sjá Guð blessi Ísland var einhvers konar kauphátíð í Kringlunni. Ég hafði ekki áttað mig á hvílíkur stórviðburður slík miðnæturopnun væri fyrir þjóðina og hringsólaði því um svæðið í leit að stæði í ríflega 20 mínútur. Það olli því að ég kom í fyrsta skipti á ævinni of seint á leiksýningu og missti því af allra fyrstu mínútum verksins og bið aðstandendur sýningarinnar afsökunar á því. Mér skilst á leikhúsvini mínum að þessar mínútur hafi að nær öllu leyti farið fram í þögn sem hefur væntanlega verið nokkuð áhrifaríkt á þessu stóra hvíta sviði.

Það var líka allt hvítt úti, snjó kyngdi niður þetta kvöld. Hringsól ökumanna minnti á einhvers konar landsmót þar sem þorri þjóðarinnar virtist vera mættur til keppni. Ökumenn siluðust hring eftir hring með kaupglampa í augum og lituðust um eftir stæði. Þetta var eins konar vitnisburður um að jafnvel þótt nokkrir einstaklingar kjósi að bera hrunskrossinn út lífið þá virðist þjóðin að mestu hafa tekið þá stefnu að njóta áfram allra þeirra allsnægta og ánægjustunda sem lífið bíður upp á. Við erum kraftmiklir lífsunnendur og kærum okkur ekki um að hírast langdvölum í skammarkrókum.

Mistæk sýning

Guð blessi Ísland kom mér að mörgu leyti á óvart. Höfundar verksins eru nokkuð trúir því efni sem þeir sækja í rannsóknarskýrslu Alþingis. Það má þó finna að því að efnistökin virðast oft æði handahófskennd. En þeir Mikael Torfason og Þorleifur Örn Arnarson finna í þessari hörmungarsögu þjóðarinnar, fjölmarga óborganlega fyndna fleti sem toga sýninguna áfram í bland við glaðlega umgjörð og ofvaxnar lottókúlur. Þetta var því á köflum sprenghlægileg revía um hrunið og þar tókst best til.

Þess á milli voru of mörg og of löng atriði þar sem hin listræna túlkun var einfaldlega slöpp í samanburði við raunveruleikann sem enn er flestum í fersku minni. Er þar helst að nefna þætti Björgúlfs Thors, Ólafs Ragnars og Ingibjargar Sólrúnar. Þeirra atriði voru langdregin og hreyfðu ekkert við manni, ekki síst í samanburði við raunverulegar upptökur frá atburðum úr hruninu sem listilega var blandað inn í sýninguna. Ég saknaði magnaðra viðtala Ólafs Ragnars við erlenda sjónvarpsfréttamenn hjá BBC og Bloomberg nokkru eftir hrun, fáir hefðu getað leikið frammistöðu hans þar eftir, en það er ef til vill annað leikrit.

Þetta var á köflum sprenghlægileg revía um hrunið og þar tókst best til.

Stórbrotinn leikur Brynhildar

Brynhildur Guðjónsdóttir er stjarna sýningarinnar og fyrsta innkoma hennar, standandi uppi á þaki á gömlum líkbíl sem ók fram á mitt svið var mjög áhrifarík. Hugmyndin að fá hana til að leika Davíð Oddsson er djörf og stórkostlegt að sjá hversu vel henni tekst til. Höfundar verksins nýttu þennan spútnik efnivið sinn sem betur fer til fulls, bæði eftir handriti rannsóknarskýrslunnar og í þeim atriðum þar sem Brynhildur, í hlutverki Davíðs, ræðir við Örn Árnason um áratuga leik hans í hlutverki sínu og svo aftur þegar Brynhildur gefst upp á Davíð og afklæðist hlutverkinu á sviði. Öll útfærsla þessara atriða, sem komu rannsóknarskýrslunni lítið við, var snilldar vel heppnuð, alveg kostuleg leikhúsupplifun.

Niðurstaðan er því verk sem státar af góðum sprettum með húmor sem kemur verulega á óvart. Þar á milli eru of margir langdregnir og rislausir kaflar, þar sem eins og oft áður í sýningum Þorleifs, er öskrað á áhorfendur hátt og lengi. Hér er minna um predikanir en maður átti von á og engir mótmælendur. Saknaði ég hvorugs. Sjálfhverfan sem víða sprettur upp í verkinu gerir það óspennandi, spara hefði til dæmis mátt nafn Borgarleikhússins sem ítrekað kom fyrir og persónulegar skoðanir einstaka leikara, sem alla jafna voru viðvaningslegar og skiluðu engu.

Óvænt sýn á Davíð Oddsson

Upp úr stendur að listamenn Borgarleikhússins hafa sett á svið sýningu þar sem Davíð Oddsson kemur út sem hetja rannsóknarskýrslunnar, maðurinn sem stöðvaði snaróða óreiðumenn með handónýt veð upp á vasann, heimtandi meiri pening þegar allt var komið í óefni. Eini maðurinn sem var heill heilsu og stóð í lappirnar gegn frekju og offorsi útrásarvíkinga. Ekki beint það sem búast mátti við að íslenskir listamenn hefðu kjark til að máta á sviði og hefði mögulega farið á annan veg, ef hlutverkið hefði lent á öðrum en Brynhildi Guðjónsdóttur yfirburðaleikkonu.

Upp úr stendur að listamenn Borgarleikhússins hafa sett á svið sýningu þar sem Davíð Oddsson kemur út sem hetja rannsóknarskýrslunnar

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

433
Fyrir 3 klukkutímum

Klopp útskýrir af hverju Henderson var tekinn af velli í hálfleik

Klopp útskýrir af hverju Henderson var tekinn af velli í hálfleik
Bleikt
Fyrir 3 klukkutímum

Instagram blekkir – Ingibjörg: „Þið sjáið ekki þegar ég óska þess að geta dáið því börnin mín eiga betra skilið“

Instagram blekkir – Ingibjörg: „Þið sjáið ekki þegar ég óska þess að geta dáið því börnin mín eiga betra skilið“
Fyrir 3 klukkutímum

Spurning vikunnar: Hvað myndir þú nota braggapeninginn í?

Spurning vikunnar: Hvað myndir þú nota braggapeninginn í?
Eyjan
Fyrir 4 klukkutímum

Konráð: Gengi krónunnar snýst um trú – Kjaraviðræður stærsti óvissuþátturinn

Konráð: Gengi krónunnar snýst um trú – Kjaraviðræður stærsti óvissuþátturinn
Eyjan
Fyrir 5 klukkutímum

Íslendingum finnst leiðinlegast að taka strætó – Hvaða ferðamáti finnst þér skemmtilegastur? Taktu könnunina

Íslendingum finnst leiðinlegast að taka strætó – Hvaða ferðamáti finnst þér skemmtilegastur? Taktu könnunina
433
Fyrir 6 klukkutímum

Aðeins einn náð betri árangri en Alisson

Aðeins einn náð betri árangri en Alisson