fbpx

Fyrir stærra land

Leikhúsdómur

Ritstjórn DV
Laugardaginn 28. október 2017 16:30

Ragnar Bragason er einn þessara listamanna sem ekki virðist mikið gefinn fyrir sviðsljósið og verðskuldar að vera mun þekktari en raunin er. Hann er afkastamikill og farsæll kvikmyndaleikstjóri, hefur leikstýrt sjónvarpsþáttunum Fóstbræðrum, Stelpunum, Dagvaktinni, Næturvaktinni, Fangavaktinni og nú síðast Föngum sem sýnd var á RÚV fyrr á þessu ári. Nýlegar kvikmyndir hans eru Málmhaus, Bjarnfreðarson og hinar svart-hvítu Börn og foreldrar, sem hann vann í samvinnu við leikhópinn Vesturport. Risaeðlurnar eru hans þriðja leikverk, áður hefur hann samið og leikstýrt Gullregni og Óskabörnum sem bæði voru sýnd í Borgarleikhúsinu.

Verk Ragnars eru gjarnan tragísk í grunninn en hann ber fágætt skynbragð á meinfyndnar og grátbroslegar uppákomur og hefur átt stóran þátt í að þróa og bæta húmor þjóðarinnar á liðnum áratugum.

Ekkert bruðl í sendiráðinu

Risaeðlurnar gerast í bústað íslensku sendiráðshjónanna í Washington. Heimilið er hið glæsilegasta og sendiráðshjónin, Ágústa og Elliði, sinna störfum sínum og hlutverkum af miklum dug. Móttökur og veislur eru daglegt brauð og alltaf má finna sérinnflutt íslensk matvæli í eldhúsinu. Sendiráðshjónin bruðla ekki með opinbert fé, að eigin sögn, þeim verður þá mikið úr litlu eins og best sést á vínlistanum. Og er tíðrætt um hversu vel þau fara með áfengi.

Listakonan Bríet Ísold er að opna samsýningu í litlu galleríi í borginni og af því tilefni hafa sendiráðshjónin boðið henni heim til hádegisverðar, ásamt unnustanum, Alberti. Upphafinn matseðillinn missir marks en vel gengur á áfengið. Með stífri drykkju taka leyndarmálin að kvisast út. Yfirgengileg sjálfsdýrkun og algjört hæfileikaleysi Bríetar Ísoldar kemur smám saman í ljós um leið og þaulæft hlutverk hins íslenska embættismanns afskræmist með óborganlegum hætti.

Stjörnuleikur hjá Eddu og Pálma

Leikritið er óborganlega fyndið. Sendiráðshjónin eru þaulæfð í kurteislegu hjali um ekki neitt en jafnframt leikin í að koma meiningum sínum á framfæri án þess að segja nokkuð í raun. Þau lauma út úr sér eitruðum pillum í lok setninga með svo lúmskum og óvæntum hætti að það tekur áhorfendur oft andartak að átta sig á hvað í raun og veru var verið að segja.

Þau Edda Björgvinsdóttir og Pálmi Gestsson eru eins og sköpuð fyrir hlutverk sendiráðshjónanna. Þau eru bæði þaulreyndir gamanleikarar og textameðferð þeirra tæknilega í sérflokki. Það hefði gjarnan mátt kalla til ósvikinn prótókollmeistara til þess að fara yfir borðsiðina með Pálma en að öðru leyti fyllti hann fullkomlega upp í hlutverkið. Edda Björgvinsdóttir skapar hér nýjan og bráðskemmtilegan karakter og fagnaðarefni að sjá hana á sviði í svo bitastæðu hlutverki. Edda hefur á löngum ferli sínum átt nokkra mjög afgerandi og afar ástsæla karaktera sem freistandi hefði verið að láta glitta í. Ragnar Bragason passar sem betur fer að hin fágaða Ágústa fái engar slíkar skvettur á sig.

Birgitta Birgisdóttir fer með hlutverk hinnar metnaðarfullu og hæfileikalausu Bríetar og tekst að gera þennan ýkta karakter skemmtilega sannfærandi. Hins vegar barst rödd hennar ekki alltaf nógu kröftuglega fram í salinn og hún virtist jafnvel draga aðra leikara svolítið niður í raddbeitingu. Þegar ákvörðun er tekin um að nota leikara á stórt svið, sem ekki hafa náð tæknilegu valdi á rödd sinni, verður einfaldlega að magna rödd þeirra upp svo áhorfendur fái notið sýningarinnar. Hallgrímur Ólafsson leikur Albert, unnusta Bríetar. Hann er jafnframt persónugervingur hins almenna manns sem hvorki sér tilganginn með stöðu sendiherrahjónanna né meintri listsköpun unnustu sinnar. Hallgrímur var fínn í þessu hlutverki sem hálfgert akkeri raunveruleikans í verkinu.

Húmorinn hafði tvímælalaust yfirhöndina yfir tragískum undirtón verksins. Hvorki Guðjón Davíð Karlsson né María Thelma Smáradóttir náðu almennilega til áhorfenda með sínar sögur og má þar kenna handritinu um að hluta.

Á frumsýningarkvöldinu vantaði töluvert upp á að leikararnir gæfu áhorfendum svigrúm til að hlæja, líkt og þau væru ekki viðbúin svo góðum viðbrögðum. Það verður að slípa strax. Þá hefði mátt stytta fyrri hluta verksins örlítið eða keyra hann hraðar.

Ekki víst að alveg allir hlægi

Leikmyndin var skemmtilega vel útfærð, með gamaldags sniði þar sem hringsviðið var nýtt til hins ýtrasta þannig að fjögur mismunandi rými sköpuðust. Mikil smíði og vel nostrað við jafnvel minnstu smáatriði. Þá voru búningar og gervi leikaranna vel útfærð. Umgjörðin var í raun hreinasta afbragð og einhvern veginn svo augljóst að gaman hafi verið að skapa útlit sýningarinnar.

Risaeðlurnar er einstaklega fyndið verk sem gerir óspart grín að forneskjulegri stöðu sendiráðsstarfsmanna sem bölva smæð landsins í hljóði og blindni sjálfumglaðra listamanna sem ekkert hafa fram að færa umfram þrána eftir frægð. Það er ekki víst að einstakir hópar sem tengjast starfsgreinum ofangreindra finni hér nokkurn skapaðan hlut til að hlæja að, en við hin fáum svo sannarlega gott tækifæri til að skemmta okkur vel í leikhúsinu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

433
Fyrir 7 klukkutímum

Frank Lampard: Ég er í sjokki

Frank Lampard: Ég er í sjokki
Eyjan
Fyrir 7 klukkutímum

Ferðamannafjöldinn stendur í stað – stöðvast þá hótel- og veitingahúsabólan?

Ferðamannafjöldinn stendur í stað – stöðvast þá hótel- og veitingahúsabólan?
Eyjan
Fyrir 8 klukkutímum

Tillaga Íslands um rafræna fylgiseðla með lyfjum samþykkt í Strasbourg

Tillaga Íslands um rafræna fylgiseðla með lyfjum samþykkt í Strasbourg
Pressan
Fyrir 8 klukkutímum

Sefur þú nokkuð í nærfötum?

Sefur þú nokkuð í nærfötum?
433
Fyrir 9 klukkutímum

Svona hefur samband Mourinho og Pogba þróast

Svona hefur samband Mourinho og Pogba þróast
Pressan
Fyrir 9 klukkutímum

Forsætisráðherra Bretlands segir að ekki verði kosið aftur um Brexit

Forsætisráðherra Bretlands segir að ekki verði kosið aftur um Brexit
Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Fann stóra bróður sinn látinn á klósetti skólans – „Hún heyrði í símanum hans hringja hinum megin við hurðina“

Fann stóra bróður sinn látinn á klósetti skólans – „Hún heyrði í símanum hans hringja hinum megin við hurðina“
433
Fyrir 10 klukkutímum

Alisson ekki í marki Liverpool á morgun

Alisson ekki í marki Liverpool á morgun