Enski boltinn er nokkurs konar sófaþjóðaríþrótt Íslendinga. Fáar ef nokkrar þjóðir hafa meiri áhuga á bresku boltasparki og flestir eiga sitt lið sem þeir styðja fram í rauðan dauðann. DV tók hús á nokkrum gallhörðum stuðningsmönnum og spurði þá hvernig þeim litist á tímabilið sem nú er í gangi.
Gunnar Sigurðarson, grínisti styðu Ipswich Town sem leikur í næst efstu deild en þar hefur liðið mátt dvelja lengi.
„Ástæða fyrir því er nokkuð óljós en benda má á að árin 1973 til 1983 var Ipswich næstsigursælasta lið ensku knattspyrnunnar á eftir Liverpool,“ sagði Gunnar við DV um málið en hann er oft þekktur undir nafinu Gunni samloka.
Gunnar er frá Ólafsvík og heilluðu litirnir í búningi liðsins hann einnig.
,,Svo eru búningarnir bláir og hvítir. Má nefna að það eru litir íslenska landsliðsins og Víkings frá Ólafsvík. Mér líst viðbjóðslega illa á tímabilið núna, sem er jafnframt versti árangur liðsins í 60 ár. Þá er árangur liðsins einnig sá versti í sögu Championship-deildarinnar. Þannig að ég hef verið fokking betri þegar kemur að knattspyrnumálum á Englandi. En annars hef ég sjaldan verið betri.“