Það getur verið stutt á milli hláturs og grátur í fótbolta, líkt og í öðrum íþróttum. Smáatriði geta skorið úr um hvort þú verður hetja eða skúrkur. Knattspyrnuárið hefur verið skemmtilegt að flestu leyti, íslenskir aðdáendur fengu að upplifa heimsmeistaramótið í fyrsta sinn, úrslitin hefðu mátt vera betri en flestir taka það með sér í sumarlandið að hafa upplifað stærsta sviðið. Erlendis gekk mikið á en eins og alltaf, er íslenskt knattspyrnuáhugafólk mikið að fylgjast með enskum fótbolta, þar hefur margt og mikið gerst. Hetjur og skúrkar verða til á hverju ári, hverjir sköruðu fram úr og hverjir áttu vont ár.
Kylian Mbappe:
Það er ekki hægt að líta yfir þetta knattspyrnuár án þess að horfa í frammistöðu Kylian Mbappe, leikmanns PSG og franska landsliðsins. Þrátt fyrir ungan aldur er Mbappe orðinn einn allra besti knattspyrnumaður í heimi, frammistaða hans á heimsmeistaramótinu var geggjuð þar sem Frakkar unnu þennan eftirsótta titil. Það er ekki langt í að Mbappe taki fram úr Cristiano Ronaldo og Lionel Messi og verði besti knattspyrnumaður í heimi, árið 2019 gæti verið árið þar sem það gerist.
Cristiano Ronaldo:
Sagan mun dæma hann sem einn ótrúlegasta íþróttamann sögunnar. Ronaldo er 33 ára gamall en hann var besti leikmaður Real Madrid þegar liðið vann meistaradeildina þriðja árið í röð. Hann fór svo á heimsmeistaramótið með Portúgal og setti upp sýningu fyrir alla í fyrsta leik gegn Spáni. Flestir á hans aldri eru hræddir við nýja áskorun en í sumar gekk Ronaldo í raðir Juventus og þar hefur hann haldið áfram að vera einn besti leikmaður heims. Ný deild, ný áskorun en samt heldur Ronaldo áfram að sigra heiminn. Magnaður íþróttamaður.
Alfreð Finnbogason:
Framherjinn knái hefur að einhverju leyti átt erfitt ár. Meiðsli hafa hrjáð hann en þegar heilsa hans hefur verið í lagi, hefur frammistaðan verið í heimsklassa. Með Augsburg í Þýskalandi hefur Alfreð raðað inn mörkum þegar heilsan hefur leyft honum það og með íslenska landsliðinu hefur uppskriftin verið eins. Alfreð glímdi við meiðsli fyrir heimsmeistaramótið í Rússlandi en þangað mætti hann og stimplaði sig inn með látum. Mark Alfreðs gegn Argentínu er merkilegasta augnablikið á þessu íþróttaári á Íslandi, stærsta sviðið er fyrir stærstu stjörnurnar.