Varnarmaðurinn Raphael Varane var mjög vonsvikinn fyrr á tímabilinu er Julen Lopetegui var rekinn frá Real Madrid.
Varane og félagar voru í miklum erfiðleikum undir Lopetegui í byrjun tímabils en hann tók aðeins við í sumar.
Þrátt fyrir það þá rann Spánverjinn einfaldlega út á tíma og eftir slæmt gengi var hann rekinn.
Varane var miður sín eftir þá ákvörðun félagsins og hringdi í Lopetegui til að biðjast afsökunar.
Hann viðurkenndi það að hann sjálfur hafi ekki verið að spila sinn besta leik í byrjun tímabils eftir HM í sumar.
Þessi 25 ára gamli leikmaður var viss um það að sín frammistaða hefði haft slæm áhrif á liðið og baðst afsökunar á því.