Ryan Giggs, fyrrum leikmaður Manchester United, hefur útskýrt hvað gerði Cristiano Ronaldo að svo góðum leikmanni.
Ronaldo kom til United sem táningur frá Portúgal en hann var oft mjög hrokafullur með boltann og hikaði ekki við að gera lítið úr öðrum leikmönnum.
Það tóku reynsluboltar United ekki vel í og segir Giggs að Ronaldo hafi oft fengið að finna fyrir því á æfingum.
,,Þegar hann kom fyrst til Manchester United þá var hann að sýna of mikil brögð á vellinum og skilaði ekki nógu miklu,“ sagði Giggs.
,,Um leið og hann hætti því þá byrjaði hann að skora mörk og leggja upp en gat kveikt á töfrunum þegar hann þurfti.“
,,Hann var ungur þegar hann kom, hann var 18 ára gamall og var enn að læra. Þetta var erfiður skóli að koma í, hann var að leika sér of mikið með boltann.“
,,Ef hann ákvað að taka of margar snertingar á æfingum þá var sparkað í hann.“
,,Hann þurfti að þroskast mjög snögglega og hann gerði það svo sannarlega og varð einn besti leikmaður heims.“