Meðlimir afganska knattspyrnusambandsins eru partur af rannsókn FIFA þessa stundina eftir ásakanir frá leikmönnum afganska kvennalandsliðsins.
The Guardian fjallar ítarlega um málið á heimasíðu sinni í dag en forseti sambandsins, Keramuudin Karim er á meðal þeirra sem þurfa að svara fyrir sig.
Guardian hefur rætt við heimildarmenn sem eru nátengdir leikmönnum kvennalandsliðsins en tvö atvik eru nú komin upp á yfirborðið.
Ofbeldi átti sér stað í höfuðstöðvum knattspyrnusambandsins sem og í æfingabúðum í Jórdaníu í byrjun árs.
Khalida Popal. fyrrum formaður kvennadeildarinnar, þurfti að flýja til Danmerkur árið 2016 vegna ástandsins í landinu og hún ræddi við Guardian ásamt leikmönnunum Shabnam Mobarez og Mina Ahmadi.
Engin svör hafa fengist frá afganska knattspyrnusambandinu að svo stöddu en FIFA hefur staðfest að rannsókn sé í gangi og hefur leitað til Sameinuðu þjóðanna í leit að sönnungargögnum.
,,Þetta var mjög erfitt fyrir okkur, að búa í landinu, að tala um þessa hluti því þessir menn eru með mikil völd. Ef leikmaður búsettur í Afganistan tjáir sig þá á sá leikmaður í hættu á að verða drepinn,“ sagði Popal í samtali við Guardian en hún hafði skipulagt æfingaferðir fyrir liðið í Jórdaníu, Japan og Sameinuðu arabísku furstadæmunum.
,,Þeir sendu tvo menn sem voru með titilinn ‘yfirmaður kvenna knattspyrnunnar’ og ‘aðstoðarþjálfarinn’.
,,Þeir lögðu leikmenn í einelti og áreittu stelpurnar, sérstaklega þær sem voru frá Afganistan því þeir vissu að þær gætu ekki talað um málið. Ég stóð í þeim og sagði þeim að ég myndi senda inn kvörtun.“
,,Þetta hélt samt áfram. Þessir menn fóru í herbergi stúlknanna og sváfu hjá þeim. Starfsmenn sambandsins sögðu stelpunum að þær myndu fá pláss á leikmannalistanum og 100 pund á mánuði ef þær myndu samþykkja allt. Þeir neyddu stelpurnar í þetta.“