Aron Einar Gunnarsson skoraði fyrra mark Cardiff í 2-1 sigri á Wolves í kvöld en liðin áttust við í ensku úrvalsdeildinni.
Þetta var annar sigur Cardiff í röð í deildinni sem er ágætis afmælisgjöf fyrir þjálfarann Neil Warnock sem fagnar 70 ára afmæli sínu á morgun.
,,Ég held að það hjálpi til, við áttum nokkra erfiða leiki við þá á síðustu leiktíð,“ sagði Aron um að mæta Wolves en bæði lið spiluðu í næst efstu deild á síðasta tímabili.
,,Það er alltaf gott að vinna heima en við vorum ekki nógu góðir í fyrri hálfleik en við börðumst fyrir hvorn annan og áttum skilið þrjú stig.“
,,Við vildum mikið fá þessi þrjú stig og líka fyrir þjálfarann, hann á afmæli á morgun!“
Junior Hoilett talaði svo um fallegt sigurmark sitt og segist vera duglegur að skora svoleiðis mörk á æfingum.
,,Ég hef aldrei séð þig gera þetta á æfingum!“ svaraði Aron þá léttur.