Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði karlalandsliðsins í fótbolta, var að gefa út ævisögu sína. Aron – sagan mín kom í verslanir á dögunum.
Þar fer Aron yfir feril sinn sem knattspyrnumaður, frá æskuárunum á Akureyri og yfir í stærstu augnablik í íþróttasögu Íslands þegar íslenska karlalandsliðið fór á Evrópumótið í Frakklandi og heimsmeistaramótið í Rússlandi.
Aron ræðir við Vísir um bókina sem var að koma út og þar segir hann að erfitt hafi verið að rifja upp sum augnablik.
„Það var alveg margt og mikið erfitt að fara í gegnum í þessari bók,“ segir Aron í Einkalífinu á Vísir.is.
Þessi harðjaxl táraðist við að ræða bókina sem Einar Lövdhal skrifaði en samskipti þeirra fóru að mestu fram í gegnum FaceTime.
,,Ég var að rifja upp skemmtilega hluti sem við vitum öll um en síðan einnig aðra hluti sem maður var að díla við sjálfur. Það kom oft upp, ég veit ekki hvort Einar hafi tekið eftir því, að maður táraðist þegar maður var að rifja upp erfiða hluti. Þá þurfti ég bara að taka mér pásu og svo bara áfram gakk. Það voru ýmsir hlutir þarna sem maður þurfti að grafa djúpt til þess að ná í.“