,,Ég er búinn að vera mjög ánægður, þetta hefur komið mér á óvart,“ sagði Hólmbert Aron Friðjónsson framherji Álasunds í samtali við 433.is í dag. Hólmbert er markahæsti atvinnumaður Íslands í deildarkeppni árið 2018.
Hólmbert gekk í raðir Álasunds fyrir tímabilið en liðið leikur í næst efstu deild Noregs. Hann kom til liðsins frá Stjörnunni þar sem hann hafði náð flugi, flugið hefur haldið áfram í Noregi. Framherjinn hefur átt eins og áður sagði mjög gott ár og skoraði 19 mörk í 28 leikjum sem er frábær árangur.
Ekki nóg með það þá lagði Hólmbert upp önnur fimm á liðsfélaga sína og reyndist einn allra mikilvægasti leikmaður liðsins.
,,Þegar ég kom til Álasunds, þá hafði maður heyrt eitthvað af leiðinlegum hlutum um næst efstu deildina hérna. Skref niður á og allt það. Ég myndi ekki segja það, það kom mér mest á óvart hversu miklu hraðari boltinn er hérna. Leikmenn eru líkamlega sterkari og þetta gerist hraðar. Ég er klárlega búinn að vera mjög ánægður með gengið“
Álasund er þessa stundina í umspili um að komast upp í efstu deild, liðið átti vondan endasprett og klúðraði því að komast beint upp. ,,Það var einn og hálfur mánuður eftir, við vorum með sjö stiga forskot á toppnum. Við vorum í góðum gír og að vinna flesta leiki, við lendum svo á vegg. Leikmenn meiðast og við byrjum að ströggla, við fórum að tapa hverjum einasta leik. Við vorum slakir í síðustu leikjunum, ég var einn af þeim sem meiddist og missti af tveimur leikum.“
Hólmbert ber félaginu vel söguna. ,,Þetta er mjög flottur klúbbur, umgjörðin er frábær og þetta er stórt félag á norskan mælikvarða. Þetta er gaman fyrir mig og mig langar að gera eitthvað í fótboltanum og fara lengra, ég er bara 25 ára gamall.“
Ætlaði aldrei út aftur:
Hólmbert fór ungur að árum til Celtic í atvinnumennsku og þaðan á láni til Bröndby. Sjálfstraustið var í molum eftir erfiða tíma.
,,Þegar ég kom heim árið 2015, 22 ára gamall, þá ætlaði ég aldrei út í atvinnumennsku aftur. Ég var ekki klár í það andlega, maður náði að laga það og í dag hefur mér sjaldan liðið betur. Ég vildi prufa þetta aftur, taka þetta kannski í minni skrefum og reyna að fara örugga leið. Það er þó aldrei neitt öruggt.“
,,Það er gaman að fara út aftur, sanna að ég geti skorað utan Íslands. Ég hafði farið til Celtic og ekkert spilað, það eina sem mig langaði var að spila og sanna mig utan Íslands.“
Sjálfstraust er allt:
Sjálfstraust er líklega það mikilvægasta sem íþrótttamaður hefur. Í KR brotnaði sjálfstraustið ennþá meira en með því að fara í Stjörnuna kviknaði líf.
,,Sjálfstraust er í mínum huga bara svona 90 prósent, frábær leikmaður með ekkert sjálfstraust gerir lítið. Miðlungs leikmaður með mikið sjálfstraust er miklu betri, sérsatklega fyrir framherja, er sjálfstraust bara allt.“
Aðspurður hvort Hólmbert hugsi um að fara í stærra lið, sagðist hann ætla að klára umspilið með Álasund og siðan skoða málin. Hann væri afar sáttur í herbúðum Álasunds. Hann hefur verið kjörinn besti leikmaður deildarinnar að mati fréttamanna og var valinn besti leikmaður Álasunds.