Framherjinn Gonzalo Higuain er genginn í raðir AC Milan á Ítalíu en hann kemur þangað frá Juventus.
Milan staðfesti þessi félagaskipti í kvöld en Higuain gerir eins árs langan lánssamning við félagið.
Higuain er 30 ára gamall sóknarmaður og hefur raðað inn mörkum á Ítalíu fyrir bæði Napoli og Juventus.
Eftir komu Cristiano Ronaldo til Juventus frá Real Madrid fékk leikmaðurinn þó grænt ljós á að fara annað.
Mattia Caldara skrifaði þá einnig undir samning við Milan og kemur líka til félagsins frá Juventus.
Caldara er 24 ára gamall hafsent en hann var í láni hjá Atalanta á síðustu leiktíð.