

Guðmundur Þórarinsson, leikmaður Norrkoping, hefur fengið mikið hrós fyrir sína frammistöðu í Svíþjóð.
Guðmundur hefur verið fastamaður í liði Norrkoping en liðið er í toppbaráttu og situr í þriðja sæti deildarinnar eftir 15 umferðir.
Guðmundur hefur verið á mála hjá Norrkoping í eitt ár en hann kom þangað eftir dvöl hjá Rosenborg í Noregi.
Miðjumaðurinn hefur spilað fyrir Sarpsborg, Nordsjælland, Rosenborg og Norrkoping í atvinnumennsku en hann er uppalinn á Selfossi.
Ingólfur Þórarinsson, bróðir Guðmundar, setti inn athyglisverða færslu á Facebook síðu sína í dag.
Þar talar Ingólfur um frammistöðu bróður síns sem fékk hrós frá Jens Gustafsson, þjálfara Norrkoping en hann sagði í viðtali á dögunum að Guðmundur væri líklega besti leikmaður deildarinnar í sinni stöðu.
Guðmundur er miðjumaður en hann hefur leyst stöðu bakvarðar á þessu tímabili með sænska liðinu og hefur staðið sig frábærlega.
Ingólfur segir að bróðir sinn sé óskiljanlega ‘undir radarnum’ hjá Íslendingum en hann á aðeins þrjá landsleiki að baki.
,,Það sem er kannski erfiðast í þessum harða heimi er stöðugleiki og það gleymist kannski þegar allskonar menn poppa upp og reyna alltaf alltof mikið á kostnað liðsins, þessi spilar aðallega fyrir liðið enda alltaf i toppbarátttu. Nú læt ég af rantinu, áfram Selfoss,“ skrifar Ingólfur á meðal annars.
Færslu hans má sjá hér.