Viðar Örn Kjartansson var í stuði fyrir Maccabi Tel Aviv í dag er liðið mætti Radnicki í Evrópudeildinni.
Maccabi sló lið Ferencvaros frá Ungverjalandi út í síðustu umferð og fékk verkefni gegn Radnicki sem kemur frá Serbíu.
Fyrri leikur liðanna fór fram í Ísrael í dag og hafði Maccabi betur með tveimur mörkum gegn engu.
Staðan var markalaus eftir fyrri hálfleikinn en Maccabi skoraði tvö mörk í þeim síðari.
Viðar gerði bæði mörk ísraelska liðsins en fyrra mark hans kom á 51. mínútu og það seinna á 69. mínútu úr vítaspyrnu.
Maccabi er því í vænlegri stöðu fyrir síðari leik liðanna sem fer fram í Serbíu.