Sveinn Aron Guðjohnsen hefur skrifað undir samning við ítalska liðið Spezia.
Breiðablik staðfesti þessar fregnir í dag en Sveinn Aron er 20 ára gamall framherji og þykir mikið efni.
Sveinn á að baki 31 leik fyrir Blika og hefur gert í þeim sjö mörk en hann tekur nú stóra skrefið út líkt og faðir hans, Eiður Smári Guðjohnsen gerði ungur á sínum tíma.
Af heimasíðu Blika:
Knattspyrnumaðurinn ungi og efnilegi Sveinn Aron Guðjohnsen hefur verið seldur frá Blikum til ítalska liðsins Spezia.
Sveinn Aron sem er tvítugur að aldri kom til Blika frá Val fyrir tveimur árum. Hann hefur leikið 31 leik með Breiðabliksliðinu og skorað í þeim sjö mörk.
Sveinn Aron á einnig að baki 17 leiki með yngri landsliðum Íslands og hefur skorað fjögur mörk.
Málið kom frekar óvænt upp og þrátt fyrir að leikmaðurinn sé mikilvægur hlekkur í Blikaliðinu vildi stjórn knattspyrnudeildar ekki standa í vegi fyrir því að þessi ungi framherji fengi tækifæri til að spreyta sig í atvinnumennsku.
Sveinn er núna á leið út til að ganga frá sínum málum og undirgangast læknisskoðun.