„Arsenal-menn sýndu okkur að fitufordómar geta svo sannarlega verið rándýrir,“ segir Toby Moses, pistlahöfundur The Guardian, um einn heitasta framherja heims um þessar mundir, Englendinginn Harry Kane.
Þessi 24 ára framherji er markahæsti leikmaður heimsmeistaramótsins sem nú stendur yfir í Rússlandi. Kane hefur skorað sex mörk á mótinu og nú 19 mörk í 28 landsleikjum fyrir England. Þykir mörgum ekki ólíklegt að kappinn nái markameti enska landsliðsins áður en hann leggur skóna á hilluna en Wayne Rooney skoraði 53 mörk í 119 landsleikjum.
Þegar Kane var ungur drengur voru ekki margir sem höfðu trú á því að þarna færi einn allra mesti markaskorari sem sést hefur. Kane var ungur að árum þegar hann var á mála hjá Arsenal en hann var látinn fara frá félaginu þar sem hann þótti ekki vera í neitt sérstöku formi. Þótti mönnum ólíklegt að hann næði langt, enda var hann stórbeinóttur strákur, eins og sumir myndu segja.
Gamlar myndir af Kane hafa nú verið að birtast á samfélagsmiðlum og er myndin hér að ofan frá árinu 2005, þegar Kane var ellefu ára.
Í pistil sínum segir Toby að leikmenn eins og Harry Kane geti verið ungum drengjum – og stúlkum vitanlega – hvatning um að leggja ekki árar í bát þó þeir séu ekki „íþróttalega vaxnir“.
Toby vitnar í orð Liam Brady sem var yfir íþróttaakademíu Arsenal á þeim tíma er Kane lék með liðinu. „Hann var ekki mjög íþróttalega vaxinn en við gerðum mistök,“ sagði hann á sínum tíma. Toby segir að það hafi ekki verið nein venjuleg mistök. „Leikmaðurinn er í dag metinn á meira en 100 milljónir punda. Arsenal-menn sýndu okkur að fitufordómar geta svo sannarlega verið rándýrir.“
Toby heldur svo áfram:
„Þetta er ekki eingöngu það sem Kane hefur afrekað. Hann getur verið búttuðum börnum mikil hvatning,“ segir hann og bætir við að það sé ekki auðvelt að vera feitur krakki – hann kveðst geta talað af reynslu um það. Þau eru kosin síðust í liðið af liðsfélögum sínum og verða fyrir áreiti frá jafnöldrum og jafnvel foreldrum. Litið sé á þau sem byrði á samfélaginu og vandamál sem þarf að leysa.
Toby segist enn þann dag í dag muna vel eftir þeim fordómum sem viðgengust – þeir séu eitthvað sem erfitt er að gleyma. Þess vegna sé gott að einstaklingar eins og Harry Kane blómstri í dag, hann sé góð fyrirmynd fyrir öll börn. „Eins og með svo margt í lífinu er vonin mesta og besta hvatningin.“
Harry Kane verður í eldlínunni með enska landsliðinu í undanúrslitum HM á miðvikudag þegar Englendingar mæta Króötum. Kane, sem leikur með Tottenham, skoraði 41 mark í 48 leikjum í vetur en samtals hefur hann skorað 140 mörk í 213 leikjum fyrir félagið.