Harry Maguire hefur átt gott heimsmeistaramót með Englandi en hann spilaði í 2-0 sigri á Svíum í gær og skoraði fyrra mark liðsins.
Maguire leikur með Leicester City í dag en hann var keyptur þangað frá Hull City síðasta sumar.
Phil Thompson, fyrrum fyrirliði Liverpool, væri mjög til í að sjá varnarmanninn spila fyrir sína menn á Anfield.
,,Ég hef verið mikill aðdáandi Harry Maguire síðan hann var hjá Hull City,“ sagði Thompson.
,,Hann hefur bætt sig mikið síðan þá og hefur átt frábært HM til þessa.“
,,Ég sagði það löngu áður en mótið byrjaði að hann væri með allt til þess að spila fyrir Liverpool.“
,,Hann er mun sneggri en fólk heldur og er góður í loftinu. Það hjálpar honum bæði sóknarlega og varnarlega.“
,,Honum líður vel á boltanum og er betri en John Stones þegar kemur að því að senda boltann úr öftustu línu.“