Hörður Snævar Jónsson skrifar frá Rússlandi:
Ísland er úr leik á Heimsmeistaramótinu í Rússlandi eftir hetjulega baráttu gegn Króatíu í kvöld. Íslenska liðið var síst slakari aðili leiksins.
Króatía vann 2-1 sigur en sigurmark þeirra kom á lokamínútu leiksins eftir mistök Emils Hallfreðssonar.
Íslenska liðið lagði allt í sölurnar, en slök færanýting varð liðinu að falli. Færin voru mörg en ekki gekk að nýta þau.
Emil Hallfreðsson var bestur í liði Íslands, gjörsamlega frábær
Byrjunarlið Íslands:
Hannes Þór Halldórsson 6
Gerði bara fína hluti í leiknum, mögulega átt að verja seinna markið.
Birkir Már Sævarsson 7
Spilaði vel og það er hreint ótrúlegt að hugsa til þess að hann sé að fara í Pepsi deildina.
Ragnar Sigurðsson (´70) 7
Spilaði fínasta leik í vörninni, Rostov parið steig fá spor vitlaus.
Sverrir Ingi Ingason 8
Kom frábærlega inn í vörnina og var ógnandi í föstum leikatriðum.
Hörður Björgvin Magnússon 6
Lélegar móttökur til að byrja með en kom sér vel inn í leikinn svo.
Jóhann Berg Guðmundsson 7
Var að spila vel og sannaði mikilvægi sitt í liðinu. Sást vel gegn Nígeríu hversu mikið við söknuðum hans.
Aron Einar Gunnarsson 6
Var byrjaður að blása þegar líða tók á leikinn og það eðlilega, nærvera hans þó mikilvæg
Emil Hallfreðsson 8 – Maður leiksins
Stjórnaði sviðinu, var að spila í sama gæðaflokki og Luka Modric. Gerði svo hræðileg mistök í seinna markinu.
Birkir Bjarnason (´90) 6
Kraftmikill en fékk nokkra góða sénsa til að skora sem nýttust ekki.
Gylfi Þór Sigurðsson 8
Fínasti leikur hjá Gylfa, gerði margt gott í sóknarleik liðsins og gerði frábærlega í að fiska og skora úr vítinu
Alfreð Finnbogason (´86) 7
Skildi allt eftir á vellinum, fórnaði sér vel fyrir liðið og var skapandi.
Varamaður:
Björn Bergmann Sigurðarson (´70) 6
Kom með ágætis kraft inn en náði ekki alveg að setja mark sitt á leikinn.