Íslenska karlalandsliðið spilaði sinn fyrsta leik á HM í Rússlandi í dag en liðið mætti stórliði Argentínu.
Fyrsti leikur riðlakeppninnar hjá strákunum okkar fór fram gegn sterkasta liði riðilsins.
Argentínumenn komust yfir í fyrri hálfleik eftir 18 mínútur er framherjinn Sergio Aguero skoraði mjög gott mark.
Argentína hélt þó forystunni ekki lengi en Alfreð Finnbogason jafnaði aðeins um fimm mínútum eftir mark Aguero.
Argentína var mun meira með boltann í leiknum en áttu í vandræðum með að skapa sér alvöru færi.
Íslensku strákarnir hlupu úr sér lungun í 90 mínútur í dag og áttu skilið að fá stig.
Guðmundur Benediktsson, Gummi Ben, birti mynd eftir leikinn í dag þar sem má sjá tölfræði íslensku leikmannana í leiknum.
Enginn hljóp meira en Gylfi Þór Sigurðsson á vellinum en hann hljóp yfir 11 kílómetra.