Argentínski snillingurinn Diego Maradona, einn allra besti knattspyrnumaður sögunnar, reynir nú að hughreysta argentínsku þjóðina eftir vonbrigðin gegn Íslandi í dag. Lokatölur 1-1 í frábærum leik.
Þetta gerir Maradona í færslu á Instagram en hann var á vellinum og sá sína menn spila. Í færslunni bendir hann á að Argentína hafi byrjað á að tapa sínum fyrsta leik á HM 1990. Þá tapaði Argentína óvænt gegn Kamerún, 1-0, en Maradona var fyrirliði argentínska liðsins.
„Og þrátt fyrir meiðslin og þrátt fyrir allt þá komumst við í úrslitaleikinn,“ sagði Maradona en Vestur-Þjóðverjar urðu heimsmeistarar þetta ár eftir 1-0 sigur. Andreas Brehme skoraði sigurmarkið úr vítaspyrnu skömmu fyrir leikslok. En Maradona hvetur landa sína til að örvænta ekki og gefast ekki upp.
„Við þurfum að halda áfram, vera hvetjandi. ÁFRAM ARGENTÍNA.“
https://www.instagram.com/p/BkF1w1CB1My/?hl=en&taken-by=maradona