Hörður Snævar Jónsson skrifar frá Moskvu:
,,Þetta var eitthvað sem við höfðum trú á allan tímann,“ sagði jaxlinn, Kári Árnason eftir 1-1 jafntefli gegn Argentínu á HM í dag.
Frábær úrslit í fyrsta leik Íslands á mótinu en liðið lék frábærlega og Kári og félagar í öftustu vörn gerðu varla mistök.
,,Það var smá stress í byrjun og fyrir leik, við spiluðum þetta eins og við erum góðir í. Skyndisóknir, langir boltar. Við sköpuðum usla, sköpum betri færi i fyrri hálfleik. Hannes ver svo vítið í seinni hálfleik eins og honum einum er lagið, þetta er ólýsanlegt.“
Leikmenn liðsins eru afar rólegir, reynslan frá EM skilar sér á svona augnabliki.
,,Við erum reynslunni ríkari, þetta var ekki raunverulegt að vera hérna. Mér fannst eins og við værum að fara í hvaða leik sem er. Á EM, þá var þetta í andltinu á þér allan tímann, það var allt öðruvísi. Við erum búnir að upplifa það. Við höfum prófað að vera á stórmóti áður, ég hef trú á að við munum spila betur í næstu leikjum. Við spilum upp á úrslit.“
,,Argentínumenn voru pirraðir, Di Maria fer í Jóa þarna. Þeir eru pirraðir frá 25 mínútu.“