Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari, ræddi við blaðamenn í dag eftir 1-1 jafntefli við Argentínu á HM.
Heimir var ekkert nema stoltur af strákunum í dag og bjóst við að leikurinn myndi spilast eins og hann gerði.
,,Þetta var stór leikur, stór stund fyrir okkur enda fyrsti leikurinn okkar á HM. Argentína erfiður andstæðingur og mikilvægt að ná í stig. Að fara í næsta leik með stig er betra en að fara ekki með neitt,“ sagði Heimir.
,,Við vissum að þeir yrðu með boltann, 60-70 prósent, en við lékum vörnina snilldarlega. Strákarnir ættu að fá mikið lof fyrir skipulagið og vinnuna sem þeir lögðu fram.“
,,Það er erfitt að verjast í 90 mínútur og þeir fá mikið lof fyrir mikla vinnu og þjálfarateymið líka. Það var ekkert í leik okkar sem kom okkur á óvart. Það gerðist allt sem ég átti von á.“
Þú talaðir um aga, hafa leikmennirnir gaman af að leika svona, 90 mínútna puð?
,,Já, sumir þeirra allavega. Við erum hreinskilnir og vitum hvernig við getum unnið leiki. Gegn liði eins og Argentínu vitum við að þeir eru með betri einstaklinga, betri tækni og með leikmenn sem spila með betri liðum.“
,,Ef við viljum fá stig eða vinna lið eins og Argentínu verðum við að spila á sérstakan hátt. Þannig getur maður verið skipulagður. Ég held að það sé skemmtilegra að leika svona og ná einhverjum árangri en leika á einhvern annan hátt og ná ekki neinum árangri.“
Jóhann Berg Guðmundsson fór útaf meiddur í leiknum, hvað amar að honum?
,,Hann virtist hafa tognað í kálfa og við vonum að þetta sé krampi eða eitthvað því um líkt. Svona kemur ekki ljós fyrr en eftir 1-2 daga.“
Margir héldu að Jón Daði myndi byrja en ekki Alfreð. Var einhver áhætta að láta Alfreð byrja?
,,Við höfum fjóra mjög góða framherja sem eru með mismunandi hæfileika. Alfreð er mjög góður í vörn líka, þess vegna notuðum við hann.“
,,Þetta var taktísk ákvörðun að nota rýmið sem hann skapar. Hann skoraði og því var það rétt ákvörðun að byrja með hann.“
Varstu ánægður með frammistöðu Arons Einars í leiknum en hann er að koma til baka eftir meiðsli?
,,Hann er leiðtoginn í þessu liði, þó hann hefði ekki verið 100% þá hefði ég samt íhugað að nota hann. Hann hefur svo góða viðveru, er fyrirliðinn og hann átti frábæran leik.“
,,Hann er ómeiddur eftir leikinn og verður jafnvel enn hraustari þegar við mætum Nígeríu í næstu viku. Ég get ekki tekið neinn einn leikmann úr liðinu. Þeir ættu allir að sofa vel í nótt.“
Stuðningsmenn, ótrúlegur hávaði?
,,Við erum mjög stolt af stuðningsmönnunum. Við áttum erfitt með að fá miða og ég veit ekki hvernig Argentína fékk alla þessa miða.“
,,Við hefðum getað selt miklu fleiri. Þetta er eins og allir leikir sem við spilum, af hverju eru þið að fagna stiginu, segir fólk. Bíðið bara þegar þið við vinnum leik.“
Stuðningurinn frá Ítalíu og Emil Hallfreðsson:
,,Ég veit af stuðningnum frá Ítalíu. Ég er mjög stoltur af því að fótboltaþjóð eins og Ítalía styðji Ísland, kannski er það af því að við spilum í bláu.“
,,Ég var mjög stoltur af Emil Hallfreðssyni, hann hefur ekki spilað mikið fyrir Udinese en hann fékk tvo leiki fyrir mót. Hann var frábær í dag, taktískt góður en vitanlega þreyttur í lokinn. Hann er kannski ekki vanur því að verjast svona mikið eins og hann gerði í dag.“