Góðan dag, kæru lesendur og velkomnir í textalýsingu frá Moscow Stadium í Moskvu þar sem framundan er leikur Íslands og Argentínu í fyrsta leik okkar á HM. Stóra stundin rennur upp klukkan 13 að íslenskum tíma, eða klukkan 16 að rússneskum. Hér munum við fræða ykkur um það helsta sem gerist í aðdraganda leiksins og stikla á stóru um það sem gerist meðan hann er í gangi.
Messi er mættur – 11.28
Það brutust út mikil fagnaðarlæti þegar sýnt var frá því þegar argentínska liðið mætti nú rétt í þessu. Þegar myndavélin beindist að Lionel Messi brutust út gríðarleg fagnaðarlæti. Það mætti halda að hann gæti eitthvað í fótbolta.
Strákarnir ganga um völlinn – 11.26
Íslenska liðið komið – 11.20
Við sjáum á skjá fyrir framan okkur þegar íslenska liðið rennur í hlað á Spartak Stadium. Strákarnir eru nú að ganga inn í klefa og virka allir pollrólegir og mjög einbeittir.
Argentínumenn ekki sáttir – 11.16
Argentínumenn eru tilfinningaríkir stuðningsmenn og þeir létu vel í sér heyra hér á vellinum þegar verið var að endursýna sigurmark Þjóðverja gegn þeim í úrslitaleik HM 2014. Þeir sem mættir eru púuðu hressilega.
—-
Sjáðu Egil tala um landsliðið – 11.11
Við hittum Egil Einarsson í Moskvu í gær og hann var í miklu stuði. Hér að neðan má sjá hann tala um leikinn sem er framundan og ýmislegt fleira.
—-
Dúllan mætt – 11.08
Siggi Dúlla, Sigurður Sveinn Þórðarson, og Kristinn Jóhannsson, vallarstjóri á Laugardalsvelli, eru mættir út á völl til að skoða aðstæður. Völlurinn er í toppstandi og líklega ekki hægt að kvarta yfir neinu.
—-
Stuðningsmenn tínast inn – 11.02
Stuðningsmenn eru farnir að tínast inn á völlinn og má búast við því að völlurinn verði þéttsetinn. Hann tekur 45 þúsund manns í sæti og er heimavöllur Spartak í Moskvu. Argentínumenn voru mjög fjölmennir hér fyrir utan völlinn í morgun og það búast við því að þeir láti vel í sér heyra. Á röltinu um Rauða torgið voru ófáir Argentínumenn að falast eftir miðum á leikinn en þeir hafa líklega gripið flestir í tómt.