Stundin sem allir hafa verið að bíða eftir rennur loksins upp á morgun þegar Ísland leikur sinn fyrsta leik í lokakeppni heimsmeistaramótsins í fótbolta. Andstæðingurinn gæti varla verið sterkari, Argentínumenn, með Lionel Messi í broddi fylkingar, bíða okkar og eiga eflaust von á erfiðum leik.
DV leitaði til nokkurra sérfræðinga til að spá í spilin fyrir leikinn á laugardag. Meðal þess sem við vildum vita var hvort Ísland eigi raunhæfa möguleika gegn þessu ógnarsterka argentínska liði, hvernig við förum að því að vinna og svo spurðum við annarra léttari spurninga, til dæmis hver skorar fyrsta mark Íslands, hver verður fyrstur íslensku leikmannanna til að snerta boltann og svo loks hversu langt við förum í keppninni. Óhætt er að segja að svörin séu jafn mismunandi og þau eru mörg en allir telja að Ísland geti unnið Argentínu.
Ingólfur Sigurðsson, knattspyrnuþjálfari og fyrrverandi atvinnumaður í knattspyrnu:
1. Ef þú mundir velja byrjunarliðið gegn Argentínu, hvernig yrði það?
Hannes Þór yrði í marki og fjögurra manna varnarlína yrði skipuð Birki Má, Kára, Ragnari og Herði Björgvini. Jóhann Berg á hægri kanti og Birkir á þeim vinstri. Aron og Emil á miðjunni, Gylfi Þór fyrir framan þá og Björn Bergmann uppi á topp.
2. Getur Ísland unnið Argentínu og ef svo er hvað þarf Ísland að gera til að vinna?
Ísland hefur auðvitað sýnt að liðið getur unnið stórar þjóðir. Það verður mikil pressa á argentínska liðinu. Ég held að lykilatriði á móti Argentínu sé að verjast í lágpressu, með tvær þéttar línur, vegna þess að þeirra menn og þá sérstaklega Messi, eiga erfiðara með að finna sér svæði á milli varnar og miðju. Megináherslan hjá Íslandi verður eflaust að þétta miðjuna, sem er hjarta liðsins, og beina þeim frekar út á vængina. Við eigum að geta varist fyrirgjöfum á móti þessu liði. Ef við getum staðist áhlaup þeirra og notað boltann skynsamlega þegar við fáum hann getum við vonandi unnið leikinn. Ef Argentína situr til baka í þeirri von að fá okkur hærra upp á völlinn, eins og Frakkar spiluðu gegn okkur í 8-liða úrslitum EM, þá gæti endað illa. Það síðasta sem maður vill sjá er Messi í skyndisókn á móti Íslandi.
3. Hvernig fer leikurinn gegn Argentínu?
Ég er hræddur um að við töpum leiknum, 2-1.
4. Hver skorar fyrsta mark Íslands í keppninni?
Jóhann Berg. Hann kemur okkur yfir snemma leiks.
5. Hver verður fyrstur til að fá gult spjald hjá Íslandi?
Birkir Bjarnason.
6. Hver verður fyrsti Íslendingurinn til að snerta boltann á mótinu?
Gylfi Þór. Við munum vinna hlutkestið og Gylfi tekur miðjuna.
7. Hvað skorar Ísland mörg mörk í riðlakeppninni og hver verður markahæstur?
Ég spái því að við skorum tvö mörk og það verði sitthvor markaskorarinn. Jóhann Berg í fyrsta leik og síðan einhver annar gegn Nígeríu.
8. Hversu langt fer Ísland í keppninni?
Við komumst ekki upp úr riðlinum. Mér finnst betra að vera með vaðið fyrir neðan mig þegar kemur að íslenska liðinu og tempra því niður allar væntingar. Það hefur gefist vel hingað til og vonandi heldur það áfram. Áfram Ísland!