Birkir Már Sævarsson, hægri bakvörður íslenska landsliðsins, er fullur tilhlökkunar fyrir leikinn gegn Argentínu á laugardag og segir að spennan fyrir leikinn sé hægt og bítandi að byggjast upp.
Íslenska liðið æfir nú í vindinum í Gelendzhik en óhætt er að segja að golan sé kærkomin enda var mjög heitt í veðri í gær. Birkir Már tók fullan þátt í æfingunni í gær og er klár í slaginn fyrir laugardaginn.
„Það er gaman að vera kominn loksins, búnir að koma okkur fyrir og farnir að æfa. Það er bara flott,“ sagði Birkir. Um leikinn á laugardag sagði hann: „Við erum búin að vera að bíða eftir þessu í marga mánuði og spennan er búin að vera byggjast upp en ég held að við séum flestir frekar rólegir yfir þessu. Þetta fer að byggjast upp örugglega núna í vikunni.“
Það fer vel um íslenska liðið á hótelinu í Gelendzhik, liðið er með hæð á hótelinu út af fyrir sig og þar er einnig nóg af ýmiskonar afþreyingu. „Svo elda kokkarnir fyrir okkur frábæran mat á hverjum degi. Þannig að þetta gæti ekki verið betra.“
Líklegt má teljast að Birkir Már verði í stöðu hægri bakvarðar í leiknum á laugardag þó hann hafi ekki spilað í vináttuleiknum gegn Ghana í liðinni viku. Fari svo að Birkir verði í byrjunarliðinu má teljast líklegt að hans hlutverk, að einhverju leyti allavega, verði að passa upp á Lionel Messi, einn allra besta knattspyrnumann sögunnar. Birkir segir að verkefnið leggist vel í hann.
„Vonandi fæ ég að spila og ég hlakka til að fá að spila á móti Messi og öllum þessum leikmönnum,“ sagði Birkir en viðtalið má sjá hér að neðan. Við biðjumst velvirðingar á að hljóðgæðin eru á köflum ekki upp á sitt besta enda setti vindurinn á æfingasvæðinu strik í reikninginn.