„Þetta leggst mjög vel í mig. Við ætlum okkur bara að vinna Aserbaídsjan,“ sagði Brynjólfur Willumsson landsliðsmaður við 433.is á hóteli Íslands í dag.
Íslenska landsliðið mætir Aserbaídsjan í fyrsta leik undankeppni HM hér heima á föstudag, áður en það ferðast til Parísar og mætir heimamönnum í leik tvö.
Brynjólfur var ekki í upprunanlega landsliðshópi Arnars Gunnlaugssonar en var kallaður inn vegna meiðsla Orra Steins Óskarssonar.
„Ég var bara klár þegar kallið kom, ég var bara tilbúinn í þetta. Ég er mjög ánægður með að vera hérna,“ sagði Brynjólfur.
Sóknarmaðurinn hefur farið frábærlega af stað með Groningen í hollensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni og skorað fjögur mörk í jafnmörgum leikjum. Var hann svekktur að fá ekki kallið til að byrja með?
„Maður er alltaf svekktur að vera ekki í hópnum. Ég er bara ánægður að vera hérna núna og þá er maður ekki að pæla mikið í því,“ sagði Brynjólfur.
Ljóst er að Ísland þarf að vinna Aserbaídsjan heima ef markmiðið er að fara á HM 2026. „Þetta er leikur sem við ætlum að vinna og ef þú horfir á hópinn sem við erum með kemur ekkert annað til greina.“