Aflraunamaðurinn Hafþór Júlíus Björnsson sló í kvöld heimsmetið í réttstöðulyftu þegar hann lyfti 505 kílóum á Eisenhart Black kraftlyftingamótinu í Þýskalandi.
Hafþór átti sjálfur fyrra metið, 501 kíló, sem hann lyfti árið 2020, og bætti met Eddie Hall um 1 kílógramm. Það met var hins vegar talsvert umdeilt í kraftlyftingaheiminum enda var það ekki sett í formlegu móti heldur í kraftlyftingastöð Hafþórs í Kópavogi á meðan Covid-faraldurinn reið yfir og viðurkenndir vottunaraðilar höfðu ekki vigtað lóð kappans.
Lyftan í kvöld hefur því endanlega kæft allar gagnrýnisraddir og hefur Hafþór ýjað að því að hann muni á næstunni freista þess að bæta metið enn frekar.
Eins og sjá má hér fyrir neðan fór Hafþór furðulétt með þessa ómannlegu þyngd og virðist eiga nóg inni:
Hafthor Bjornsson (Thor) has just deadlifted 505kg.
New All time WR.
Outrageous. pic.twitter.com/vNUm6bdq1z
— Interested Onlooker (@michaelsnape) July 26, 2025