NFL deildin vestan hafs verður æ vinsælli hér á landi og er rúsínan í pylsuendanum auðvitað leikurinn um Ofurskálina í febrúar. Valur Gunnarsson úr hlaðvarpinu Tíu Jardarnir fór á leik á dögunum og sagði frá upplifuninni í Íþróttavikunni.
Valur fór á leik Baltimore Ravens og Detroit Lions á M&T Bank leikvanginum í Baltimore. Heimaliðið vann öruggan sigur.
„Að kaupa miða á NFL leiki er svolítið eins og að vera á verðbréfamarkaðnum. Ef þú kaupir miða á stórleik, bæði lið að gera vel og þú kaupir fimm vikum fyrir mót, þá eru miðarnir frekar dýrir. En ef annað liðið skítur, leikstjórandi meiðist eða þess háttar lækkar verðið og þú getur verið heppinn,“ segir Valur sem greiddi um 30 þúsund fyrir miðann.
„Þetta kostar sitt en er viðráðanlegt,“ bætti hann við.
Valur segir að það sé fjölskylduvæn stemning á leikjum í NFL deildinni en þó sé mikið fjör.
„Mér finnst skemmtilegast að labba í kringum völlinn og upplifa stemninguna. Ég fer alltaf svolítið fyrr inn á völlinn, þarna eru matsölustaðir, leikir sem þú getur farið í, bara að vera þarna og upplifa stemninguna.
En það öðruvísi þarna en á Englandi til dæmis að þarna sitja áhorfendur beggja liða bara saman. Þú kaupir bara miða einhvers staðar.“
Innslagið í heild er í spilaranum en þar ræðir Valur einnig gang mála í deildinni.
Þá er hægt að nálgast nýjasta þátt Tíu Jardanna hér að neðan.