Það hefur verið ansi mikið fjör á EM 2020 í leikjum dagsins. Mikið af mörkum hafa verið skoruð og dramatíkin alls ráðandi.
Fyrr í dag vann Spánn Króatíu, 5-3, eftir framlengdan leik. Staðan eftir venjulegan leiktíma var 3-3.
Króatía komst í 1-0 en Spánverjar sneru leiknum sér í vil, í 3-1. Króatar skoruðu þó tvö mörk seint í leiknum og tryggðu sér framlengingu.
Það sama var uppi á teningnum í leik Frakklands og Sviss. Staðan í þeim leik er 3-3 þegar venjulegum leiktíma er lokið. Framlenging byrjar innan skamms.
Sviss komst í 1-0, Frakkar komust svo 3-1 yfir. Sviss skoraði hins vegar tvö mörk seint í leiknum og tryggði sér framlengingu.
Í báðum tilvikum héldu flestir að úrslitin væru ráðin í stöðunni 3-1. Dagurinn í dag sýnir okkur hins vegar að allt getur gerst í fótboltanum.