fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Sport

Carlsen gegn Karjakin: Heimsmeistaratitill undir í New York

Fyrsta einvígisskákin hefst í dag kl.19.00 – Carlsen talinn sigurstranglegri en Karjakin er skeinuhættur

Björn Þorfinnsson
Föstudaginn 11. nóvember 2016 11:15

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Allar áhugamenn um almennilega dramatík bíða í ofvæni eftir heimsmeistaraeinvíginu í skák sem hefst í dag í New York og stendur til 30.nóvember. Þar mun Norðmaðurinn Magnus Carlsen freista þess að verja heimsmeistaratitilinn sinn í annað sinn. Í fyrri tvö skiptin hefur hann knésett Indverjann Vishy Anand en nú bíður jafnaldri hans, hinn rússneski Sergey Karjakin. Sá bar sigur úr býtum í úrslitamóti bestu skákmanna heims um réttinn til að skora á Magnus. Normaðurinn er talinn sigurstranglegri í einvíginu en enginn skyldi vanmeta ótrúlega hæfileika Sergey Karjakin.

Yngsti stórmeistari sögunnar.

Karjakin er að upplagi Úkraínumaður, fæddur í borginni Simferopol á Krímskaga árið 1990. Hann lærði að tefla fimm ára gamall og snemma kom í ljós að þarna var undrabarn á ferðinni. Í ágúst 2002 þá tókst Sergey litla að uppfylla allar kröfurnar til þess að vera útnefndur stórmeistari í skák, þá 12 ára og sjö mánuðum betur. Ekki veit ég hvað aðrir voru að brasa við þegar þeir voru tólf ára gamlir en höfundur þessara orða var að öllum líkindum upptekinn við að reyna að sleikja á sér olnbogann.

En að Sergey litla aftur. Með afreki sínu þá varð hann yngsti stórmeistari sögunnar og það met stendur óhaggað 14 árum síðar. Til samanburðar varð Carlsen stórmeistari 13 ára og fimm mánaða, sem er svo sem ekkert slor heldur. Til að byrja með var því Karjakin talinn efnilegri en Carlsen en sá norski, sem oft er titlaður Mozart skáklistarinnar, hefur heldur betur sigið fram úr á fullorðins árum. Magnus hefur ríkt sem heimsmeistari í þrjú ár og hefur í rúm fimm ár verið stigahæsti skákmaður heims. Til samanburðar hefur Karjakin aldrei náð fyllilega að skara fram úr öðrum skákmönnum á toppi stigalistans alþjóðlega. Hann situr í 9.sæti heimslistans með 2772 stig, tæpum áttatíu stigum færri en heimsmeistarinn.

Þá ber að geta þess að Carlsen og Karjakin hafa teflt 21 kappskák á ferli sínum. Carlsen hefur unnið fjórar skákir en Sergey aðeins eina. Sextán skákir hafa endað með skiptum hlut.

Ástarlíf flækist fyrir skákferlinum

Karjakin er mikill stuðningsmaður Vladimir Putin sem að þykir ekki vera til eftirbreytni á Vesturlöndum. Þá er hann ákafur talsmaður þess að Krímskagi verði hluti af Rússlandi um ókomna framtíð. Ástarlíf hans hefur einnig vakið athygli en Karjakin er tvígiftur sem að verður að teljast óvenjulegt miðað við ungan aldur hans. Á sama tíma fréttist lítið af ástarmálum Magnúsar enda hafa flestir alvöru skákmenn vit á því að halda sér frá kvenfólki, nú eða karlmönnum ef sá gállinn er á þeim. Fræg er sú flökkusaga að þegar Bobby Fischer missti sveindóminn þá var hann spurður af því hvernig tilfinningin hefði verið. „Skákin er betri,“ svaraði Fischer og þar með var það útrætt. Það eru líklega þessar fórnir sem menn þurfa að færa til þess að verða heimsmeistarar (skrifar agalaus tveggja barna faðir sem situr í 2097-sæti heimslistans).

Taugatitringur yfir gagnaleka

Spekingar telja að Carlsen sé mun sigurstranglegri en meta þó nokkrar líkur á því að Karjakin geti komið á óvart. Þetta er tækifæri lífs hans og hann hefur gríðarlega sterkt bakland í Rússlandi sem aðstoðar hann við undirbúning. Báðir keppendur hafa verið í stífum æfingabúðum og hafa sankað að sér aðstoðarmönnum sem eru í hópi sterkustu skákmanna heims. Mikil leynd hvílir hinsvegar yfir því hverjir séu að aðstoða hvern þó að eitthvað leki náttúrulega út eins og gengur. Þá hefur verið talsverður taugatitringur í herbúðum Carlsen um að rússneskir tölvuþrjótar brjótist inn í tölvur meistarans til þess að leka undirbúningi hans í herbúðir Karjakin. Leituðu fulltrúar Norðmannsins til risans Microsoft til þess að tryggja öryggi gagnanna og var þeim víst vel tekið.

Hægt verður að fylgjast með gangi mála í New York með fjölbreyttum hætti. Fyrsta skákin hefst í dag, kl.19.00, og eru áhugasamir lesendur DV hvattir til þess að kynna sér ítarlegar upplýsingar á skak.is um hvernig best sé að fylgjast með. Þar er bent á ókeypis síður sem og ódýrar áskriftaleiðir sem bjóða uppá betri þjónustu. Gleðilega hátíð!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Gerir risasamning við Pepsi og fær yfir 200 milljónir

Gerir risasamning við Pepsi og fær yfir 200 milljónir
433Sport
Fyrir 11 klukkutímum

Sjáðu myndbandið umtalaða – Klopp og Salah rifust á hliðarlínunni

Sjáðu myndbandið umtalaða – Klopp og Salah rifust á hliðarlínunni
433Sport
Fyrir 13 klukkutímum

Liverpool gæti þurft að borga allt að 13 milljónir – Margir að kveðja félagið

Liverpool gæti þurft að borga allt að 13 milljónir – Margir að kveðja félagið
433Sport
Fyrir 13 klukkutímum

Staðfestir viðræður við nýjan þjálfara – ,,Held að ákvörðun verði tekin í næstu viku“

Staðfestir viðræður við nýjan þjálfara – ,,Held að ákvörðun verði tekin í næstu viku“