Á föstudag var ónefndur, 15 ára unglingur, sakfelldur fyrir að hafa orðið jafnaldra sínum, Harvey Willgoose, að bana með hnífstungu. Sakborningurinn lýsti sig sekan um manndráp en neitaði sök hvað varðar ákæru um morð að yfirlögðu ráði.
Voðaverkið var framið í Sheffield á Englandi, þann 3. febrúar á þessu ári, fyrir utan matsalinn í kaþólskum framhaldsskóla, All Saints Catholic High School. Ódæðismaðurinn ungi kom með hnífinn í skólann og stakk Harvey tvisvar í brjóstkassann. Samnemendur þeirra flýðu skelfingu lostnir af vettvangi.
Málið skók samfélagið í Sheffield og fjöldi manns fylgdist með útför og minningarathöfn hins látna unglings í streymi, meðal annars í miðborginni.
Foreldrar Harvey Willgoose greina frá því í viðtali við The Mirror að þau hafi frétt að sonur þeirra hafi verið myrtur á samfélagsmiðlum þar sem einhver skrifaði „Rip Harvey,“ rétt eftir atvikið.
Móðirin greinir frá því að hún muni ávallt þurfa að glíma við sektarkennd yfir því að hafa sent drenginn í skólann gegn vilja hans en hann óttaðist mjög ofbeldi og hnífaburð í skólanum. Hjónin hafa heitið því að berjast gegn hnífaburði í skólum og krefjast þess að sett verði upp hnífaleitartæki (málmnemar) við alla skólainnganga.
„Börnin fara hrædd í skólann,“ segir hún í viðtali við Mirror. „Það má ekki leyfa þessu að gerast aftur,“ segir hún ennfremur.
Hún segir að réttarhöldin, sem tók vikutíma, hafi verið martröð, enda var sýnt töluvert myndefni frá morðvettvangnum. Aðspurð hvaða tilfinningar hún bæri í brjósti til morðingja sonar síns, segir hún: „Ég ber engar tilfinningar í hans garð. Mér finnst eins og hann hafi líka orðið fyrir órétti ef maður skoðar alla söguna. En ég vil réttlæti, ég vil að hann verði sakfelldur fyrir morð og látinn sitja lengi í fangelsi.“
Refsing hefur ekki verið ákvörðuð yfir unglingnum.