Í frétt CBS News kemur fram að líkamsleifarnar hafi fundist í síðustu viku og hefur nú þegar tekist að bera kennsl á fimmtán fórnarlömb. Vonast yfirvöld til þess að hægt verði að bera kennsl á þau öll en það gæti reynst tímafrekt þar sem sumar líkamsleifarnar voru illa farnar.
Lögregla fann líkin við leit í borginni Irapuato sem er næstfjölmennasta borg héraðsins með um 340 þúsund íbúa.
Meðlimir samtakanna Hasta encontrarte, eða Þar til ég finn þig á íslensku, ættingjar einstaklinga sem saknað er í Mexíkó, heimsóttu svæðið á mánudag í þeirri von að fá nýjar upplýsingar um ástvini sína.
„Við gefum ekki upp vonina. Í okkar tilfelli eru liðin mörg ár (síðan umræddur ástvinur sást síðast) og þegar þessar fjöldagrafir finnast viljum við vera viðstödd,” segir kona í samtali við AFP sem vildi ekki láta nafns síns getið.
Glæpasamtök í Mexíkó eru þekkt fyrir að beita svívirðilegu ofbeldi og hafa fjöldagrafir eins og þessar fundist víða á undanförnum árum. Vel yfir hundrað þúsund manns hafa horfið í Mexíkó í því fíkniefnastríði sem staðið hefur yfir í landinu á síðustu árum og áratugum.
Staðan hefur verið einna verst í Guanajuato en á síðasta ári voru skráð yfir 3.100 morð í héraðinu. Þá var tilkynnt um 3.600 mannshvörf.