Konan skýrði frá þessu á spjallþræði á Reddit og hafa töluverðar umræður spunnist um málið í kjölfarið. Konan sagðist hafa verið stödd á kaffihúsi og hafi beðið þolinmóð í röð eftir að fá afgreiðslu. Fyrir aftan hana í röðinni var kona með lítið barn. Barnið var í góðu skapi og sagði „halló“ við alla í röðinni og sagði konan að barnið hafi svo sannarlega lífgað upp á daginn.
„Á meðan ég beið nærri afgreiðslukassanum og beið eftir pöntuninni minni kom röðin að konunni með barnið. Hún pantaði sér kaffi sem kostaði 4 dollara. Ég bauðst vingjarnlega til að borga fyrir kaffið og hún virtist svo þakklát og þakkaði mér tvisvar sinnum fyrir.“
Allt hafði gengið vel fram að þessu en nú tóku málin nýja stefnu og það ekki til hins betra að sögn góðhjörtuðu konunnar.
„Síðan sneri hún sér að afgreiðslumanninum og sagði: „Fyrst svo er ætla ég að bæta tveimur skotum við og bláberja múffu.“
Sagði hún í færslu sinni og bætti við:
„Mér brá svo við þetta að ég sagði afgreiðslumanninum strax að ég hefði skipt um skoðun og hún gæti sjálf borgað fyrir pöntunina sína. Ég gekk að borðinu, tók drykkinn minn og fór án þess að segja meira.“
Sagði hún um viðbrögð sín og varpaði síðan fram spurningu til lesenda:
„Er ég slæma manneskjan í þessu af því að ég dró tilboð mitt til baka?“
Margir hafa tjáð sig um málið og eru flestir þeirrar skoðunar að konan hafi verið í fullum rétti til að draga tilboð sitt til baka.