Sonia Sevilla, flugfreyja hjá spænska flugfélaginu Level, veitti nýlega National Geographic innsýn í reynslubanka sinn og benti á eitt og annað sem fólk getur gert til að gera langar flugferðir þægilegri en ella.
Hún sagði að undirbúningur sé lykillinn og fyrsta, og um leið mikilvægasta ráð hennar, er að fólk reyni að fá sér blund áður en farið er út á flugvöll og einnig sé gott að hreyfa sig svolítið. Þetta geti fært fólki ótrúlega góða orku fyrir ferðina. Þegar komið er á áfangastað, ráðleggur hún fólki að aðlaga sig strax að hinu nýja tímasvæði ef það mun dvelja þar um lengri tíma.
Ef stoppið er stutt, þá segir hún að það geti borgað sig að halda sig við dægurrytma heimahaganna.
Hvað varðar máltíðir um borð í flugvélinni, þá ráðleggur hún fólki að velja létta rétti frekar en stórar og þungar máltíðir.
Hún segir að best sé að forðast áfengi því loftþrýstingurinn og hið þurra loft í farþegarýminu bæti við neikvæð áhrif þess. Vatn og jurtate eru hins vegar góðir valkostir.
Þægilegur klæðnaður er annar mikilvægur þáttur. Peysa eða teppi geta komið að góðu gagni því hitastigið sveiflast oft til.
Hún mælir einnig með notkun flugsokka til að tryggja gott blóðflæði í löngum flugferðum. Þá er gott að ganga öðru hvoru um farþegarýmið til að halda líkamanum gangandi og draga úr líkunum á bólgnum fótum.
Fyrir þá sem vilja hvíla sig á leiðinni eru svefngríma og eyrnatappar bráðnauðsynlegir að sögn Sevilla.