Trump varð tíðrætt um að landið væri fullt af glæpamönnum og andlega veiku fólki frá öðrum ríkjum, fólk sem hefði ekki landvistarleyfi og full ástæða væri til að vísa úr landi. Yfirvöld hafa þó ekki bara einblínt á þessa hópa heldur hefur fjöldi ósköp venjulegs vinnandi fólks verið vísað úr landi.
Nú ætlar Trump að herða aðgerðirnar enn frekar og verður sjónum yfirvalda nú einnig beint að fólki sem er með gilda vegabréfsáritun til Bandaríkjanna.
Bandarískir fjölmiðlar segja að utanríkisráðuneytið segi að unnið sé að því að hefja yfirferð á upplýsingum um alla útlendinga sem eru með vegabréfsáritun til Bandaríkjanna. Þetta eru um 55 milljónir manna. Stór hluti þeirra eru ferðamenn, fólk sem starfar í Bandaríkjunum og kaupsýslufólk.
Markmiðið er að taka á margvíslegu svindli sem að mati Trump-stjórnarinnar er mjög útbreitt. Margir þeirra, sem eru í þessum hópi, eru með útrunna vegabréfsáritun eða hafa hlotið dóm í Bandaríkjunum.
Nú þegar er byrjað að skoða erlenda námsmenn í landinu. Búið er að afturkalla vegabréfsáritun 6.000 námsmanna vegna þess að hún var útrunnin eða vegna brota á ýmsum reglum.
Yfirvöld segja einnig að í framtíðinni verði í ákveðnum tilfellum stuðst við færslur fólks á samfélagsmiðlum til að koma upp um hugsanlega „and-bandarískar“ skoðanir og „gyðingahatur“ þegar sótt er um ferða- og dvalarleyfi í Bandaríkjunum.