Kona á Bretlandi sem rekið hefur útfararþjónustu með sérhæfingu á þjónustu við foreldra látinna ungbarna liggur undir þungu ámæli. Hún er sökuð um að hafa geymt barnslík á heimili sínu og meðal annars komið látnu barni fyrir í barnastól fyrir framan sjónvarpið svo barnið gæti „horft“ á teiknimyndir.
BBC greinir frá. Konan, sem hefur starfað í Leeds, hefur verið bönnuð á öllum fæðingardeildu og líkhúsum í umdæminu og getur því vart starfað áfram. Hins vegar gilda engin sérstök lög um útfararþjónustu á Englandi og því er ólíklegt að konan verði sótt til saka fyrir furðulegt athæfi sitt.
Konan heitir Amie Upton og er 38 ára ára gömul. Hún segist hafa byrjað starfsemi sína í kjölfar þess að hún fæddi andvana barn árið 2017.
Árið 2021 leitaði móðirin Zoe Ward til Upton í kjölfar þess að sonur hennar lést af heilaskemmdum þiggja vikna gamall á sjúkrahúsi í Leeds. Hafði fjölskylduvinur mælt með Upton. Segir Ward í samtali við BBC að hún hafi átt von á faglegu umhverfi. Greinir hún frá því að lík litla drengsins hennar hafi verið sótt á sjúkrahúsið af hálfu starfsmanns Upton. Þegar hún fór síðan á útfararstofuna tl að hitta frú Upton brá henni mjög í brún er hún sá að starfsemin var rekin frá heimili hennar.
Hún sá drenginn sinn sitja í barnastól fyrir framan sjónvarpið inni í stofunni hjá útfararstjóranum. Skammt frá var annað barnslík. „Komdu inn, við erum að horfa á PJ Masks,“ sagði Upton við hana. Ward segist hafa öskrað af skelfingu.
„Það var kattaklóra þarna í horninu og ég heyrði hundsgelt og þarna var annað dáið barn á sófanum. Þetta var ekki falleg sjón,“ segir Ward.
Sjá nánar á vef BBC.