Á upptökunni sést stúlkan ganga róleg við hlið móður sinnar og leiða hana inn á Dongchuan sjúkrahúsið í Dongchuan í Kína. Hnífur virðist sitja fastur í höfði hennar, rétt ofan við hægra eyrað.
Móðirin, sem heitir Hu, sagði í samtali við kínverska fjölmiðla að hnífurinn hafi óvart lent í höfði stúlkunnar þegar verið var að skipta á rúmfötunum.
Hu reyndi að sögn að draga hnífinn út strax á eftir en ákvað síðan að hætta við það og fara með hana beint á sjúkrahús.
Stúlkan gekkst undir aðgerð þar sem taugaskurðlæknir fjarlægði hnífinn úr höfði hennar.
Læknir sagði í samtali við China Business View að ástæðan fyrir að stúlkan hafi lifað þetta af sé að þar sem hún sé svo ung sé höfuðkúpa hennar mjög mjúk. Hann sagði einnig að ef Hu hefði dregið hnífinn út, hefði stúlkan verið í mikilli hættu. Það hafi verið nauðsynlegt að leita til læknis.