Skýrt er frá tilvist herstöðvarinnar í nýrri skýrslu frá hugveitunni CSIS. Fram kemur að þaðan sé hægt að skjóta eldflaugum sem geta dregið til Bandaríkjanna að sögn New York Times.
Hugveitan segir að herstöðin sé nærri bænum Sinpung-dong. Hann er tæplega fimm kílómetra frá kínversku landamærunum.
Bygging herstöðvarinnar er talin hafa hafist 2004 og hafi hún verið tekin í notkun tíu árum síðar. Tókst Norður-Kóreumönnum að halda tilvist hennar leynilegri allt þar til nú.
CSIS komst að hinu sanna á grunni upplýsinga frá heimildarmönnum, skjölum og gervihnattarmyndum.
Talið er að um tuttugu leynilegar herstöðvar séu í Norður-Kóreu og að Norður-Kóreumenn reyni að halda þeim leyndum fyrir umheiminum.