Meint nauðgun átti sér stað árið 2008 og má segja að Rossi hafi lagt á sig talsverða vinnu til að komast undan réttvísinni. Árið 2020 ákvað hann að sviðsetja eigið andlát og flýja til Bretlands undir dulnefni, fyrst til Englands og svo til Skotlands. Áður hafði hann sagt frá því að hann væri með banvænt krabbamein og ætti aðeins örfáar vikur eftir ólifaðar.
Sviðsetti hann minningarathöfn fyrir sjálfan sig og sagði að ösku hans hefði verið dreift út í sjó. Á sama tíma flúði hann til Bretlands undir dulnefninu Arthur Knight Brown, en lögreglunni vestan hafs grunaði að maðkur væri í mysunni og lýsti eftir honum í gagnagrunni Interpol.
Segja má að kórónuveirufaraldurinn sem reið yfir heimsbyggðina fyrir nokkrum árum hafi komið upp um hann því hann var handtekinn á sjúkrahúsi í Glasgow eftir að hafa leitað þangað vegna alvarlega Covid-19 veikinda.
Starfsfólk sjúkrahússins þekkti húðflúr sem hann var með á sér og komu þau heim og saman við húðflúr á honum eftirlýsta Nicholas Rossi. Áður en að þessu kom hafði bandarískum rannsóknaraðilum tekist að rekja stafræna slóð Rossi til Glasgow og því vissu þeir að hann væri á svæðinu.
Kom á daginn að Arthur væri ekki eina dulnefnið sem Nicholas hafði tekið upp á flóttanum. Hann hafði breytt nafni sínu minnst fjórum sinnum og skáldað ótrúlegustu sögur um sjálfan sig. Meðal annars hafi hann sviðsett, eins og áður segir, andlát sitt.
Nicholas barðist hart gegn því að verða framseldur til Bandaríkjanna og hélt því fram fullum fetum að lögregla væri að fara mannavillt. Hann hafði ekki erindi sem erfiði og eru réttarhöld nú hafin yfir honum í Utah þar sem hann er meðal annars sakaður um nauðgun og heimilisofbeldi.
Konan, sem ekki má nefna nafn hennar af lagalegum ástæðum, segir að hún hafi á sínum tíma svarað auglýsingu sem Rossi setti inn á Craigslist. Upp frá því hafi þau hist og síðan trúlofast. Segir hún að Rossi hafi verið yndislegur til að byrja með en síðan hafi hann byrjað að sýna á sér skuggalegar hliðar, orðið stjórnsamur og ofbeldisfullur. Nicholas neitar sök í málinu.