Það er mismunandi við hvaða hitastig má til dæmis þvo fatnað, handklæði og tuskur. Margir vanmeta mikilvægi þess að velja rétta hitastigið og rétta þvottaprógrammið.
Þvottavélar nútímans eru með hin ýmsu þvottaprógrömm sem eru hönnuð til að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til hinna ýmsu efna. En margir þekkja ekki þessi mismunandi möguleika og eiga því á hættu að velja ekki viðeigandi prógramm og þar með verður þvotturinn ekki eins góður að sögn Greenvibe.
Segir miðillinn að ef þvotturinn lykti illa eftir þvott, þá sé fullt tilefni til að skoða málið vel. Hugsanlega hafi þú notað prógramm með lágum hita. Þau spara oft nokkrar krónur í vatns- og rafmagnskostnað en duga ekki alltaf til að gera út af við allar bakteríurnar. Þetta vandamál kemur sérstaklega upp í tengslum við mjög rakadræg efni, til dæmis handklæði.
Handklæði eru meðal þeirra efna sem hafa mesta tilhneigingu til að safna bakteríum og ýmsum óværum í sig, það er auðvitað vegna þess hvaða hlutverki þau gegna.
Hvað varðar þvott á handklæðum þá segir miðillinn að það mikilvægasta sé að blanda þeim ekki saman við annan þvott, þar á meðal fatnað.
Hvað varðar þvottaefni, þá er mikilvægt að velja milda en um leið áhrifaríka tegund sem getur hreinsað handklæðin án þess að skemma þau.
Margir gera síðan þau mistök að þvo handklæðin á lægri hita en 60 gráðum.
Ef þau eru þvegin á 30 eða 40 gráðum, sleppa margar bakteríur lifandi í gegnum þvottinn. Það getur síðan valdið slæmri lykt og jafnvel húðvandamálum, sérstaklega ef handklæðin eru notuð daglega.
Þvottur við 60 gráður tryggir að bakteríur, húðfrumur og annað, hverfur úr handklæðunum.