fbpx
Sunnudagur 10.ágúst 2025
Pressan

Hún vissi að pabbi hennar var að gera slæma hluti við hana – Það tók mörg ár að afhjúpa sannleikann

Pressan
Sunnudaginn 10. ágúst 2025 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Eins slæmt og þú gætir ímyndað þér að það hafi verið, ég gekk í gegnum það,“ segir Kate Price, um nýútkomnar endurminningar sínar.

Þegar  Price var sex ára gömul, sumarið 1976, notaði faðir hennar, Kenneth, vasahníf til að skera X í neðri hluta vinstri framhandleggs hennar og hrækti um leið út úr sér aðvörunarorðum.

„Þú ert mín,“ man hún eftir að hann sagði við hana. „Þú munt alltaf vera mín.“

Stuttu síðar, að sögn Price, laumuðust hún og vinkona hennar inn í pallbíl föður hennar. Price grunaði að faðir hennar væri að gera hluti við hana. Slæma hluti. Hún gat bara ekki munað hverjir þeir voru.

Það var þó eitt smáatriði sem festist í minni hennar, eitthvað sem hún hafði heyrt pabba sinn segja í talstöðinni sinni: „Kjúklingaplokkari,“ gælunafn á öðrum manni sem Price mundi eftir að Kenneth talaði við allan tímann.

Svo hún tók upp talstöðvahljóðnemann og dró andann djúpt. „Breaker, breaker einn níu,“ sagði hún og reyndi að hljóma eins og faðir hennar. „Ég er að leita að Chicken Plucker.“ Þá heyrðist rödd í gegn: „Þetta er Chicken Plucker.“ Hann hljómaði enn eldri en Kenneth. Price og vinkona hennar drógu andann djúpt.

„Bara það að segja nafnið hans, heyra hann svara, það breytti mér,“ segir hún við í viðtali við People. „Það sannaði að ég var ekki að ímynda mér það. Hvað sem ég var að ganga í gegnum var raunverulegt.“

Næstum fimm áratugum síðar er leitinni að sannleikanum lokið þegar Price gefur út endurminningar sínar, This Happened to Me. Í bókinni rekur hún árin sem hún eyddi í að reyna að afhjúpa hvað faðir hennar hafði í raun gert henni sem ung stúlka og lífið sem hún byggði upp sem fullorðin kona.

„Málið er að mál mitt er kennslubók. Það er ekkert einstakt við það sem kom fyrir mig, í alvöru,“ segir Price. „Rétt eins og Jeffrey Epstein málið, þá passar mitt mál við klassíska skilgreiningu á mansali með börn.“

Í leit að svörum

Price ólst upp á áttunda og níunda áratugnum í verkalýðsbænum Bloomsburg í Pennsylvaníu við árbakkann. Ofbeldið var aldrei langt undan. Átta ára gömul horfði hún á föður sinn, sem starfaði sem rafvirki á barnaspítala í nágrenninu, rífa svefnherbergishurð af hjörunum og grípa um hálsinn á eldri systur hennar, Kari.

Price ætlaði að flýja af heimilinu, en var stöðvuð af móður sinni, Carolyn, sem dró hana til baka með hvísli: „Hvað munu nágrannarnir halda?“

Systurnar Kate og Kari.

Carolyn, sem vann á sama sjúkrahúsi og Kenneth, lést í nóvember 1993. Price segir að hún hafi aldrei gripið inn í ofbeldið í fjölskyldunn, lömuð, telur Price, af ótta við að missa börnin sín og reiði eiginmanns síns. En Carolyn vildi líka betra líf fyrir börnin sín og hvatti Price til að leita að meiru fyrir sjálfa sig. Árið 1990 var Price að læra umhverfismenntun við Lesley College fyrir utan Boston, ferðaðist til Indlands og vann á sumrin í Colorado.

Þegar hún komst á fullorðinsár fór Price einnig að líta inn á við.

Þegar hún var 17 ára hvatti námsráðgjafi í framhaldsskóla hana til að leita sér meðferðar eftir að hún brotnaði niður eftir áföllin í bernsku sinni. „Ég vissi í raun ekki hvað var að mér,“ rifjar Price upp.

Hún gat varla hætt að gráta og átti stundum erfitt með að anda. Ákveðin í að leita sér hjálpar borgaði hún fyrir meðferðartíma með peningum úr hlutastörfum sínum sem sundlaugarvörður og í brúðarkjólaverslun. Mamma hennar vissi aldrei af þessu.

Að sögn Price hófust minningarnar þegar hún var sex ára, sama ár og faðir hennar skar X í handlegg hennar. Hún lýsir þeim sem dökkum, hræðilegum fortíðarleiftrum sem hún gat ekki útskýrt en gat ekki gleymt. Hún reyndi að halda þeim í fjarlægð.

Nótt eina árið 1998, var Price ein í íbúð sinni í Cambridge, Massachusetts, grátandi. Hún hafði nýlega séð myndina Bastard Out of Carolina, sem fjallar um unga stúlku sem verður fyrir miklu líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi af hálfu stjúpföður síns. Að horfa á myndina vakti upp minningar, um að vera í pallbíl föður síns, í veiðiferð, og skaðann sem hún fór að átta sig á að hún hafði falið í áratugi.

Fleiri senur komu upp í huga Price: af flannelsskyrtum, viskíi, stingi úr sprautu í handlegg hennar og höndum föður síns, sem og andlitum fjölda, fjölda karlmanna.

„Með augun opin sá ég hundrað vörubílstjóra sem höfðu nauðgað mér,“ segir hún í dag.

Price hringdi í meðferðaraðila sinn, sem sagði henni að leita strax á sjúkrahús. Hún náði í leigubíl og á spítalanum tók hjúkrunarfræðingur á móti henni með volgri mjólk og hreinum rúmfötum. Þetta var mesta umhyggja sem hún hafði nokkurn tímann fundið fyrir.

Daginn eftir hitti hún áfallageðlækninn Dr. Bessel van der Kolk. Hann er þekktur fyrir rannsóknir sínar á áfallastreituröskun og meðferð sem þá var að koma fram og kallaðist EMDR, og hann hjálpaði Price að leiða hana aftur í gegnum eigin minningar, með meiri skýrleika. (Viðtal þeirra varð síðar hluti af metsölubók van der Kolks, The Body Keeps the Score, en Price er þar ekki nafngreind.)

Meðferð hjálpaði, en margt var enn óljóst. Sem fullorðin kona gerði Price mansal að faglegri sérþekkingu sinni. Hún byrjaði einnig að tala um reynslu sína af föður sínum, sem vakti athygli blaðamanns á staðnum.

Í meira en áratug rannsakaði Price fortíð sína með hjálp Janelle Nanos hjá The Boston Globe, sem að lokum skrifaði um sögu Price árið 2022. Í viðtali við Nanos staðfesti fjölskylduvinur frásögn af misnotkuninni og sagði að móðir Price hefði sagt henni frá því fyrir mörgum árum.

Price hafði ekki ímyndað sér það. Örin, líkamleg og önnur, voru raunveruleg.

„Pabbi minn var vanur að segja við mig: „Þú lætur mig gera slæma hluti,“ segir hún.

Þegar Price lítur til baka segir hún að misnotkun hennar hafi varað í sex ár frá því hún var sex til tólf ára. Hún byrjaði í gömlum bílskúr; lyktin af ákveðinni bjórtegund vekur enn upp slæmar minningar.

Hún telur að henni hafi verið gefin lyf, sem ásamt áfallinu hafi lengi gert minningar hennar óljósar, fastar í undirmeðvitundinni. En hún man eftir því að vera lyft upp úr rúminu um miðja nótt, borin út, látin síga niður í gryfju vafin í strigateppi vætt í olíu og áfengi.

Price segir einnig að Kenneth hafi selt hana til allt að 100 vörubílstjóra á hvíldarstöðvum við þjóðveg I-80 í Pennsylvaníu, til að fá aðgang að öðrum börnum og græða peninga.

Price segir að það hafi ekki endað þar: Afi hennar í móðurætt, sem einnig hét Kenneth og er nú látinn, réðst á hana sex ára gamla, í kjallaranum á heimili sínu.

„Eins slæmt og þú gætir ímyndað þér að það hafi verið, ég gekk í gegnum það. Ég upplifði endurteknar nauðganir sem barn. Ég hafði enga hugmynd um hversu hræðilegt þetta í raun var. En það var hryllilegt, niðurrifandi og djúpt áfall.“

Price komin á fullorðinsár.

Kveðjustund

Faðir Price var aldrei ákærður. Alríkisyfirvöld rannsökuðu málið á einum tímapunkti en hann neitaði að hafa gert eitthvað rangt. Hann og móðir Price eru bæði látin.

„Enginn hefði trúað mér. Hann var heillandi. En ég tel að hann sé félagsfælinn og sjálfsdýrkandi. Fólk hélt að hann væri frábær gaur. Ef fjölskylda mín tryði mér, þyrftu þau að sættast við að þau hefðu verið blekkt áratugum saman,“ segir Price.

Greinin í Globe og endurminningar Price veita ítarlegustu opinberu frásögnina hingað til af ofbeldinu sem hún var beitt.

Árið 1999 skrifaði hún til barnaspítalans þar sem faðir hennar vann til að vara þau við því sem hún sagði að hann væri fær um. Dögum síðar, að hennar sögn, staðfestu þau að gripið hefði verið til aðgerða til að vernda sjúklinga. Sú staðfesting gaf henni hugrekki til að gera það sem meðferð gat ekki gert, að hringja í hann. Hún hafði æft símtalið í EMDR meðferðinni.

„Pabbi, veistu hvernig þú baðst afsökunar fyrir nokkrum árum síðan fyrir að vera slæmur faðir?“ sagði hún við Kenneth og bætti við: „Hvað með að viðurkenna og biðjast afsökunar á að hafa slegið mig, beitt mig kynferðislegu ofbeldi? Pabbi, þú nauðgaðir mér. Mjög oft.“

Segir hún föður sinn hafa neitað, ítrekað. 

„Pabbi, þetta gerðist,“ sagði Price við hann. „Þú veist að þetta gerðist.“

Kenneth sagði henni að hringja aldrei aftur. Þetta var í síðasta skipti sem þau töluðu saman.

Um 26 árum síðar, 20. apríl á páskadag,  hafði Price nýlokið við bók sína, þegar eiginmaður hennar, íþróttafréttamaðurinn Chris hjá Globe, rétti henni símann sinn. Þar las hún  minningargrein föður hennar á vefsíðu.

Price hringdi í systur sína, Kari. Þau biðu eftir sorginni, sem aldrei bankaði upp á. Maðurinn sem hafði beitt þær ofbeldi var látinn. Ekki var minnst á nöfn þeirra systra í minningargreininni um hann.

„Við fundum ekki fyrir neinum tilfinningum,“ segir Price. „En ég var þakklát. Í fyrsta lagi vegna þess að ég þyrfti aldrei að hafa áhyggjur af því að finna fyrir honum eða vera elt af honum aftur. Í öðru lagi lauk ég við bókina á meðan hann var á lífi. Það skiptir máli, því það er sannleikurinn.“

Price og eiginmaður hennar.
Price í barnaskóla.

„Ég hata ekki föður minn“

Sem þolandi og fræðimaður sem berst fyrir því að binda enda á misnotkun innan fjölskyldna, veit Price, 55 ára, hvernig áföll milli kynslóða nærðu misnotkun hennar. Sem móðir sjálf (hún og Chris eiga son) er sársaukinn enn til staðar yfir því að foreldrar hennar brutu aldrei hringrásina.

„Ég hata ekki föður minn,“ segir hún. „Hann hefur verið horfinn úr lífi mínu svo lengi að hann skiptir ekki máli,“ segir Price. „Svo margir foreldrar særa börnin sín og við eigum erfitt með að sætta okkur við það. En það er sannleikurinn.“

Price bindur vinir við að bók hennar og saga hennar fræði aðra og muni með tímanum leiða til breytinga.

Hún er aðstoðarrannsóknarfræðingur við Wellesley Centers for Women; yfirrannsóknarfræðingur hjá Global Association of Human Trafficking Scholars; og ráðgjafi hjá National Center for Missing and Exploited Children og Global Platform for Child Exploitation Policy.

Hún leiðir einnig fyrstu landsrannsóknina á fjölskyldum sem stunda kynferðislegt mansal með börn og viðskiptum sem snúast um kynferðislega misnotkun barna.

„Ég er þakklát fyrir starfið sem ég vinn og fyrir fjölskyldu mína,“ segir hún. „Ég er heppin að vera á lífi, að berjast gegn þessu. En gerendur, aðallega mansalsmenn, halda áfram að dafna á meðan þolendum er kennt um, þau gleymast, stundum glatast þau í sjálfsvígi. Þessi hringrás þar sem foreldrar meiða börnin sín á sér enn stað á hverjum degi. Það er veruleikinn.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

Þessar matvörur hraða þyngdartapi og þessar vinna gegn því

Þessar matvörur hraða þyngdartapi og þessar vinna gegn því
Pressan
Í gær

Konur eru hamingjusamari án karla og barna – „Ef þú ert kona, slepptu því að giftast“

Konur eru hamingjusamari án karla og barna – „Ef þú ert kona, slepptu því að giftast“
Pressan
Fyrir 2 dögum

Birta myndband af hlaupadrottningu ganga í skrokk á kærasta sínum

Birta myndband af hlaupadrottningu ganga í skrokk á kærasta sínum
Pressan
Fyrir 2 dögum

Heitasti ágústdagur sögunnar í Phoenix í gær

Heitasti ágústdagur sögunnar í Phoenix í gær
Pressan
Fyrir 3 dögum

Þekktur vísindamaður hengdur fyrir njósnir

Þekktur vísindamaður hengdur fyrir njósnir
Pressan
Fyrir 3 dögum

Blaðið hefur sýningar í september – „Tilbúin að hrista upp í öllu“

Blaðið hefur sýningar í september – „Tilbúin að hrista upp í öllu“
Pressan
Fyrir 3 dögum

Þriggja ára lifði af fall frá átjándu hæð

Þriggja ára lifði af fall frá átjándu hæð
Pressan
Fyrir 4 dögum

Nuddari braut kynferðislega gegn frægri leikkonu – „Þessi fyrirlitlega mannvera“

Nuddari braut kynferðislega gegn frægri leikkonu – „Þessi fyrirlitlega mannvera“