Lögregla á Tenerife, sem og lögregluyfirvöld í Wales, lýsa eftir 28 ára gömlum breskum manni sem talinn er hafa flogið til Tenerife frá Manchester-flugvelli í Englandi þann 7. júlí.
Síðast sást til Gerallt, eins og maðurinn heitir, er hann fór frá heimili sínu í bænum Llandudno í Norður-Wales, þann 4. júlí. Talið er fullvíst að hann hafi flogið frá Manchester til Tenerife þann 7. júlí en hann skilaði sér ekki í heimflugið þann 12. júlí, samkvæmt upplýsingum frá flugfélaginu.
Lögreglan í Norður-Wales kallar manninn aðeins Gerallt í tilkynningu sinni og segir að hún hafi vaxandi áhyggjur af velferð hans. Á hún í samstarfi við yfirvöld á Kanaríeyjum og breska sendiráðið í Tenerife við rannsóknina.
Gerallt er sagður vera 1,70 m á hæð með stutt svart hár. Þegar síðast sást til hans var hann í svarbláum íþróttagalla.
Þeir sem kunna að hafa upplýsingar um málið eða hafa séð Gerallt og eru staddir á Tenerife eru beðnir um að hringja í síma 091 og greina lögregluyfirvöldum á Tenerife frá vitneskju sinni.
Lögreglan í Norður-Wales segir: „Við hvetjum hvern þann sem kann að vita um verustað Gerallt, eða hann sjálfan, að gefa sig fram og láta okkur, eða fjölskyldu hans vita að hann sé heill á húfi.“